Uppskriftir

Indverskur lambapottréttur

Líkt og allir Íslendingar vita er lambakjötið okkar algjört ljúfmeti, hvort sem það er steikt í ofni og borið fram með brúnuðum kartöflum, sósu og grænum baunum eða soðið í kjötsúpu. Ótal aðrir möguleikar eru þó fyrir hendi enda um að ræða gott hráefni sem sómir sér vel í flestum lambakjötsréttum. Þessi réttur er upprunalega persneskur og heitir á frummálinu „Rogan josh“ sem í raun stendur fyrir að rétturinn er eldaður í olíu við mikinn hita. Rogan josh réttir eiga það sameiginlegt að standa saman af steiktum lambakjötsbitum sem eldaðir eru í sósu úr brúnuðum lauk, jógúrti, engifer og góðum kryddum sem gera réttinn fallega rauðan að lit og gefa honum hita og gott bragð. Uppskriftin er ekki ný og kemur fyrir í fjölda matreiðslubóka í ýmsum útfærslum. Rétturinn flokkast ekki undir neinn glamúr enda eru pottréttir sjaldnast af þeim toga. Hann myndi frekar flokkast sem matur fyrir sálina sem lætur manni líða vel og er matur sem á sérlega vel við á köldum vetrardögum. Það hefur víst verið nóg af þeim síðasta mánuðinn og það verða líklega næg tækifæri til að ylja sér við góðan pottrétt áður en fer að vora.

 

Rogan josh lambakjöt

¼ bolli olía

900 gr. lambakjöt, skorið í litla bita.

Salt

2 laukar, skornir smátt

2 hvítlauksgeirar

2 tsk. ferskt engifer, skorið mjög smátt eða rifið.

1 matskeið + 1 tsk karrý (ef notað er madras karrý, þá verður rétturinn sterkari)

1 tsk túrmerik

½ tsk cayenne pipar

2 lárviðarlauf

Um 400 ml af tómat púrru

1 bolli hrein jógúrt

2 bollar vatn

1 tsk garam masala

Kóríander lauf til skreytingar

Basmati hrísgrjón, naan brauð

 

Aðferð: Hitið olíu í breiðum potti eða djúpri pönnu. Saltið lambið og steikið í olíunni á háum hita í 10 til 12 mínútur. Hrærið í af og til. Færið lambakjötið á disk.

Setjið laukinn á pönnuna og steikið í nokkrar mínútur við vægari hita, þar til hann verður mjúkur. Bætið þá engifer, hvítlauk, karrý, túrmerik, cayenne pipar og lárviðarlaufum út í látið malla í um tvær mínútur. Bætið þá tómatpúrru, jógúrt og vatni við. Saltið örlítið og látið suðuna koma upp. Bætið svo lambakjötinu út í og setjið lok á pottinn, en hafið smá rifu á. Látið malla við vægan hita í eina klukkustund. Þá skal hræra garam masala út í og elda í fimm mínútur í viðbót. Áður en maturinn er borinn fram skal veiða lárviðarlaufin upp úr og fallegt er að skreyta matinn með smá kóríanderlaufum. Berið fram með hrísgrjónum, nanbrauði og jafnvel steiktu grænmeti eða fersku salati.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Saman á Skaga

Verkefni sem snýst um að rjúfa félagslega einangrun fullorðinna fatlaðra einstaklinga Undanfarin tvö ár hefur Hildur Karen Aðalsteinsdóttir stýrt verkefni... Lesa meira