Skarphéðinn Magnússon, yfirþjálfari hjá Knattspyrnufélagi ÍA. Ljósm. kgk.

„Notum bolta og leik til að búa til heilsteypta einstaklinga“

Yngri flokka starf knattspyrnuhreyfingarinnar raskaðist lítið vegna Covid-19 í sumar. Allar æfingar fóru fram og sú var reyndar einnig raunin í samkomubanninu í vor. „Þá voru æfingar í formi fjaræfinga alla virka daga. Ég held að við höfum staðið okkur mjög vel þar og er ánægður hversu vel foreldrarnir stóðu sig þar líka. Eftir samkomubannið varð ekki brottfall eins og við bjuggumst við heldur komu bara allir til baka,“ segir Skarphéðinn Magnússon, yfirþjálfari hjá Knattspyrnufélagi ÍA, í samtali við Skessuhorn. Mótahald yngri flokka hefur sömuleiðis lítið sem ekkert raskast, þangað til nú í ágústmánuði.

„Norðurálsmótið okkar á Akranesi, Orkumótið og TM-mótið í Eyjum, Set-mótið á Selfossi og Rey Cup voru öll haldin. Það náðu allir sínum stóru mótum hérna heima. Það eina sem féll út hjá okkur var að 3. flokkur kvenna komst ekki til Danmerkur á Vildbjerg Cup, sem var frestað. En það verður bara farið næst,“ segir hann. „Það gekk bara vel hjá öllum okkar iðkendum að fara á þessi mót. Þau snúast að miklu leyti um upplifunina af því að fara á mót. Krakkarnir læra mikið á því að keppa og við viljum auðvitað fá sem flesta leiki. En síðan er það líka að læra að vera í hóp, hvernig maður hegðar sér í hóp, hvernig maður hegðar sér í keppni og fyrir utan keppni, hvernig maður á að taka tapi og sigrum. Þeir sem eru að fara á mót og gista í fyrsta skipti þurfa að leysa það verkefni og takast á við að vera ekki alltaf undir verndarvæng forráðamanna. Það er miklu meiri lærdómur fólginn í þessu fyrir krakkana en bara að spila fótbolta,“ segir hann og bætir því við að hann líti á yngri flokka starfið sem nokkurs konar uppeldisstofnun. „Á meðan grunnskólarnir nota bækur og lestrarefni þá notum við bolta og leik til að búa til heilsteypta einstaklinga. Við vitum alveg að það verði ekki allir atvinnumenn, en stefnan er að skila öllum ánægðum út úr starfinu hjá knattspyrnufélaginu,“ segir Skarphéðinn.

Það sé meðal annars gert með því að skapa góðar minningar af knattspyrnumótum yfir sumarið. „Hvort sem maður var bestur í liðinu eða fannst bara alveg jafn gaman að skoða fuglana, þá er samt gaman að taka þátt. Við viljum að upplifunin af því að vera í knattspyrnu hjá ÍA sé góð. Burtséð frá því hvort krökkunum finnst skemmtilegt að spila fótbolta á að vera gaman í hópnum og gaman að hitta strákana og stelpurnar,“ segir yfirþjálfarinn.

Sjá viðtal við Skarphéðinn í Skessuhorni vikunnar sem kom út í dag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Mokveiði í dragnót

Dragnótarbáturinn Steinunn SH frá Ólafsvík lenti heldur betur í mokveiði rétt undan Ólafsvík á sunnudaginn. Köstuðu skipverjar dragnótinni aðeins þrisvar... Lesa meira