Daniel Victor Herwigsson og Halldór Breiðfjörð hafa mikla ástríðu fyrir dómgæslu. Ljósm. glh.

„Vil meina að við séum besta dómarafélag á landinu“

KDA útvegar KSÍ flesta dómara af öllum félögum

Þeir Halldór Breiðfjörð og Daniel Victor Herwigsson eru félagar í Knattspyrnudómarafélagi Akraness, KDA, og eiga það sameiginlegt öðrum félögum í KDA að hafa mikla ástríðu fyrir dómgæslu á fótboltaleikjum.

Halldór Breiðfjörð var dómari í mörg ár fyrir Knattspyrnusamband Íslands en lagði síðan dómaratakkaskóna á hilluna á síðasta ári. Engu að síður þá gat hann ekki hugsað sér að stíga alfarið frá dómgæslu svo hann kemur nú að leikjum sem eftirlitsdómari ásamt því að vera í dómaranefnd KSÍ.

Daniel Victor er hins vegar nýgenginn í félagið, eða í nóvember á síðasta ári. Daniel Victor er frá Borgarnesi og steig sín fyrstu skref í dómgæslunni þar sumarið 2016. Eftir að hafa frétt af dómarafélaginu á Akranesi varð hann snöggur að setja sig í samband við Halldór. Áður en Daniel vissi af var dómaraáhugamálið orðið að ástríðu og er hann nú einnig orðinn dómari hjá KSÍ. Blaðamaður setti sig í samband við þá félaga í vikunni sem leið þar sem þeir gáfu sér tíma til að segja frá því öfluga og mikilvæga starfi í þágu knattspyrnuíþróttar á Íslandi, sem á sér stað hjá Knattspyrnudómarafélagi Akraness.

Öflugt félag

Hjá Knattspyrnudómarafélagi Akraness er 21 virkur meðlimur, þar af eru 19 dómarar og tveir eftirlitsdómarar. „Við erum að skaffa KSÍ flestu dómarana af öllum liðum á landinu,“ segir Halldór stoltur. „Næsta lið á eftir er stórveldi á Stór-Hafnarfjarðarsvæðinu en þar eru töluvert færri dómarar en hjá okkur,“ bætir hann við.

KDA fékk dómaraverðlaun KSÍ fyrir árið 2018 á síðasta ársþingi sambandsins. Þar tók Halldór við viðurkenningarskildi fyrir hönd félagsins frá formanni KSÍ, Guðna Bergssyni, og segir í frétt á heimasíðu sambandsins: „Samstarfið hefur verið ákaflega farsælt og átt mikinn þátt í því að styrkja hið öfluga starf sem unnið er í knattspyrnumálum á Akranesi.“
Félagið hefur fengið þessa viðurkenningu þrisvar sinnum, árið 2015, 2016 og svo núna síðast fyrir árið 2018. „Við erum að framleiða dómara. Ég vil meina að við séum besta dómarafélag á landinu og ég vil að við höldum áfram að vera bestir og halda þessum titli,“ segir Halldór ákveðinn og leynir sér ekki ástríðan hans fyrir viðfangsefninu.

Nánar er rætt við Halldór og Daniel Victor í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir