Verðlaunahafar. F.v. Beate Stormo, Róbert Daníel og Ingvar.

Íslandsmeistaramót eldsmiða var haldið á Akranesi

Íslandsmótið í eldsmíði var haldið á Safnasvæðinu í Görðum á Akranesi síðastliðinn sunnudag. Hefð er fyrir því að íslenskir eldmiðir komi saman langa helgi en þeir hófu dagskrána á örnámskeiði í eldsmíði á fimmtudaginn. Til úrslita á mótinu kepptu síðan sjö. Var verkefnið tvíþætt. Annars vegar áttu þátttakendur að smíða mataráhöld og hins vegr nytjahlut þar sem að minnsta kosti ein samsuða var í smíðisgripnum. Tveggja manna dómnefnd skipuð þeim Bjarna Þór Kristjánssyni og Simon Beyeler mat síðan smíðisgripina út frá ýmsum þáttum m.a. fagurfræði, hönnun og nytsemi. Verðlaun voru veitt fyrir þrjú efstu sætin. Það kom ekki á á óvart að Beate Stormo frá Kristnesi í Eyjafirði bar sigur úr býtum. Hún er ríkjandi Norðurlandameistari og margfaldur Íslandsmeistari í eldsmíði. Verðlaunagripurinn sem hún hlaut að launum var geldingatöng. Í öðru sæti varð Róbert Daníel Kristjánsson frá Þingeyri og heimamaðurinn Ingvar Matthíasson varð í þriðja sæti.

Óhætt er að segja að á Akranesi sé fullkomnasta aðstaða landsins til eldsmíða. Í sérbyggðu húsi á Safnasvæðinu er aðstaða til smíðanna sífellt að batna og smiðjan meðal annars komin með kyndingu. Guðmundur Sigurðsson og Ingvar Matthíasson segjast stoltir af aðstöðunni og ánægjulegt að Íslandsmótið er nú haldið á Akranesi ár eftir ár. Þar er nú góð aðstaða til kennslu og eldsmíða þar sem járn er glóðhitað og mótað í ýmsa nytjahluti.

Líkar þetta

Fleiri fréttir