Frá Norðurálsmótinu. Ljósm. gbh.

Norðurálsmótið vel heppnað þrátt fyrir smá vætu

Hið árlega Norðurálsmót í knattspyrnu fór fram á Akranesi um helgina, 8.-10. júní sl. Mótið er fyrir drengi í 7. flokki, sem eru á aldrinum sex til átta ára. Óformlegt upphaf mótsins var venju samkvæmt skrúðganga sem farin var frá Stillholti áleiðis í Akraneshöllina á föstudagsmorgun. Þar var mótið formlega sett og fyrstu leikirnir voru spilaðir skömmu síðar.

„Mótið var mjög vel heppnað þrátt fyrir smá rigningu. Aldrei hefur verið jafn fjölmennt á kvöldvöku og ég hef ekki heyrt annað en allir hafi farið mjög sáttir og glaðir heim að móti loknu,“ segir Hulda Birna Baldursdóttir, framkvæmdarstjóri Knattspyrnudeildar ÍA. Bryddað var upp á þeirri nýbreytni á mótinu í ár að spila í fimm manna liðum í stað sjö. Var það gert til að koma til móts við minni félög sem ekki hafa alltaf náð tilsettum fjölda til að vera með lið. Því voru fleiri félög með að þessu sinni auk þess sem fyrirkomulagið gerir það að verkum að hver drengur fékk að spila meira en áður. „Þetta fyrirkomulag kom mjög vel út og ég hugsa að það sé komið til að vera,“ segir Hulda Birna.

Myndasyrpu frá Norðurálsmótinu er að finna í Skessuhorni vikunnar sem kom út í dag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir