Svipmynd frá Unglingalandsmótinu í Borgarnesi 2010. Ljósm. Skessuhorn.

Unglingalandsmót hefst í dag

Um verslunarmannahelgina verður 19. Unglingalandsmót UMFÍ haldið í Borgarnesi. Um 1.500 keppendur eru skráðir á mótið og búist er við um 10- 15 þúsund manns í Borgarnes mótsdagana. Keppni hefst í fyrramálið með golfkeppni svo hefst keppni í körfubolta um hádegið. Alls verður keppt í 14 keppnisgreinum. Mjög fjölbreytt afþreyingardagskrá er í boði og opin öllum. Mig langar til að vekja athygli ykkar á nokkrum óvenju áhugaverðum dagskrárliðum.

 

Hraðasta ár Íslands frá upphafi.

Mikil spenna hefur verið í frjálsum að undanförnu og gríðarlega skemmtilegt er að fimm flottir spretthlauparar verða með sýningarriðil á mótssetningu unglingalandsmóts UMFÍ föstudaginn 29. júlí milli 20-21. Þeir Ari Bragi Kárason, Kolbeinn Hörður Gunnarsson, Dagur Andri Einarsson, Trausti Stefánsson ásamt Patreki Andrési Axelssyni munu etja kappi í 100 metra spretthlaupi.

Patrekur Andrés sló Íslandsmet á dögunum, er hann keppti á Íslandsmóti Íþróttasambands fatlaðra síðustu helgi. Patrekur Andrés er blindur og hleypur ásamt fylgdarhlaupara er hann keppir.

Kolbeinn Höður varð einnig Íslandsmeistari á Meistaramóti Íslands um seinustu helgi þegar hann sigraði í 100 metra hlaupi. Hann hljóp á 10,61 sekúndu og var 9 hundruðustu úr sekúndu frá vikugömlu Íslandsmeti Ara Braga sem gat ekki keppt á mótinu. Ari Bragi lenti í því óláni að flugvélin sem hann ferðaðist með á mótið gat ekki lent á Akureyri vegna þoku og varð hann því frá að víkja.

Blessunarlega er góð veðurspá alla verslunarmannahelgina í Borgarnesi og verður því ekki vandkvæði fyrir þá að etja kappi á föstudaginn. Þessir strákar eru búnir að vera í banastuði í allt sumar og til alls líklegir. Verður gaman að sjá þessa hröðustu spretthlaupara landsins á setningarathöfn ULM 2016

 

Götufótbolti er skemmtileg nýjung á Íslandi

Á unglingalandsmótinu ætlum við að bjóða upp á „götufótbolta“ þar sem leikni og trix skipta öllu máli. Til að sýna og kenna þetta koma til okkar tveir ungir strákar frá Danmörku þeir Peter Kristoffer Licht og Omid Karbalaie Hosseinkani. Þeir koma báðir frá „Copenhagen Panna House“ sem er einskonar samtök fyrir götufótboltann. Strákarnir sem hingað koma hafa unnið EM (4:4) tvisvar og VM ( 3:3 ) tvisvar svo hér eru á ferðinni miklir meistarar. Þeir verða með sýningu á setningarathöfninni á föstudaginn en einnig verða þeir með kynningu og leiðsögn bæði á laugardegi og sunnudegi klukkan 11-14 & 15-17.

 

Sannkallað spjótkastseinvígi á laugardaginn

Helgi Sveinsson er nú Evrópumeistari síðan í júní í Grossetto á Ítalíu og heimsmethafi í spjótkasti F42 með 57.36 m. Rúnar Steinstad frá Noregi er spjótkastari í sama flokki og Helgi. Rúnar á brons frá síðasta EM með 50,34m og náði bronsi á Paralympics í London. Báðir hafa verið í mikilli framför undanfarið og munu keppa í spjótkastinu í Ríó. Báðir hafa misst fótlegg ofan við hné og nota gervifót og hlaupafjöður frá stoðtækjafyrirtækinu Össuri. Þeir eru gott dæmi um íþróttamenn sem láta ekkert stöðva sig og eru mikil hvatning fyrir ungt fólk til að stunda íþróttir og láta drauma sína rætast.

Helgi og Rúnar hafa eldað grátt silfur á keppnisvellinum síðan Helgi hóf sinn feril 2012. Þeir ætla að keppa í hittniþraut á ULM í Borgarnesi á laugardaginn klukkan 12:15 til 12:45 og leyfa síðan unglingunum að að skoða búnað sinn og fræðast um spjótkast.

-tilkynning

Líkar þetta

Fleiri fréttir