Hlauparar og aðstoðarmenn tilbúnir við Núpsdalstungu í Miðfirði kl. 5:19 að morgni. F.v.: Guðmundur K. Einarsson og Snorri Árnason (áhöfnin á Hrímni II sem sést í baksýn), Birkir Þór Stefánsson, Gunnar Viðar Gunnarsson, Haukur Þór Lúðvíksson, Sævar Skaptason, Bryndís Óladóttir, Gunnar Ólason, Tómas Orri Ragnarsson, Arnfríður Kjartansdóttir, Ragnar K. Bragason og Stefán Gíslason. Ljósm. Nanna Arnfríðardóttir Christensen.

Hlupu yfir Arnarvatnsheiði á 12 tímum

Síðastliðinn laugardag lauk 10 ára fjallvegahlaupaverkefni Stefáns Gíslasonar í Borgarnesi með hlaupi yfir Arnarvatnsheiði úr Miðfirði suður í Borgarfjörð. Þetta var fimmtugasta hlaupið í verkefninu og jafnframt það langlengsta, en samtals mældist vegalengdin 81,31 km. Hlaupinu luku Stefán og félagar hans á rúmum 12 klukkustundum og var vel fagnað af vinum og vandamönnum við vegamótin ofan við Kalmanstungu þar sem hlaupinu lauk.

Fjallvegahlaupaverkefni Stefáns var afmælisgjöf hans til sjálfs sín á fimmtugsafmæli hans í mars 2007. Þá einsetti Stefán sér að hlaupa yfir 50 fjallvegi fyrir sextugt, annað hvort einn eða í góðra vina hópi. Til að vera gjaldgengir í verkefnið skyldu fjallvegirnir vera a.m.k. 9 km að lengd, fara upp í a.m.k. 160 m hæð yfir sjó, tengja saman tvö byggðarlög eða áhugaverða staði og vera gjarnan fornar göngu- eða reiðleiðir. Fáfarnir og torfærir bílvegir voru einnig gjaldgengir samkvæmt þeim skilmálum sem fylgdu gjöfinni.

Nánar í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir