Miðbik kjörtímabils – staða og stefna sveitarstjórnar í Hvalfjarðarsveit

Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar

Kjörtímabilið er nú hálfnað og þá er kjörinn tími til að meta árangur markmiða og skipuleggja næstu skref. Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar hefur með samvinnu náð góðum árangri í þeim markmiðum sem sett voru fram í samstarfs- og málefnasamningi sveitarstjórnar, þótt enn sé svigrúm til úrbóta.

Verkefni kjörinna fulltrúa eru mörg og fjölbreytt en í starfi kjörins fulltrúa fæst tækifæri til að leggja sitt af mörkum við að hlúa að og efla sveitarfélagið með það að markmiði að tryggja góða þjónustu, styðja við uppbyggingu og viðhalda innviðum ásamt því að stuðla að velferð íbúa. Sveitarstjórn hefur lagt áherslu á að halda íbúum upplýstum um störf sín með reglulegum fréttabréfum sem einnig innihalda upplýsingar um viðburði og önnur málefni sem snerta sveitarfélagið.

Kröfur um úrlausn fleiri verkefna og aukna þjónustu sveitarfélaga fer ört vaxandi og leggur sveitarstjórn áherslu á að bregðast við eftir bestu getu á ábyrgan hátt. Í því skyni var m.a. samþykkt að stofna nýja deild innan stjórnsýslu sveitarfélagsins, Umhverfis- og skipulagsdeild. Markmið hinnar nýju deildar er að stuðla að framtíðarstöðugleika og bæta verkefna-samstarf, með áherslu á trausta og faglega þjónustu. Það er gæfa sveitarfélagsins að búa að fyrirmyndar mannauði, hvort sem er innan stjórnsýslunnar, skólastofnana eða annarsstaðar en það er styrkur og forsenda þess að sveitarfélagið geti mætt auknum kröfum á skilvirkan hátt.

Þar sem eitt af meginmarkmiðum sveitarstjórnar er að tryggja góða þjónustu þá var virkilega ánægjulegt að sjá niðurstöður nýlegrar íbúakönnunar sem Vífill Karlsson hagfræðingur SSV vann að en skv. henni eru íbúar Hvalfjarðarsveitar og á Akranesi lang ólíklegastir af íbúum á Vesturlandi til að huga að flutningum. Það er rakið til almennrar ánægju með flest er lýtur að þjónustu og almennum búsetuskilyrðum (Skessuhorn, 23.04.2024).

Til að auka íbúalýðræði hefur verið settur upp ábendingahnappur á heimasíðu sveitarfélagsins, www.hvalfjardarsveit.is. Sveitarstjórn þakkar fyrir gagnlegar ábendingar sem hafa borist og hvetur íbúa til að nýta ábendingahnappinn hvenær sem þörf er á. Sveitarfélagið hefur innleitt fleiri stafrænar lausnir þar sem byggingamál hafa færst að mestu yfir á rafrænt form sem og umsóknir er varða félagsmál. Stafræn vegferð og umbreyting er á hraðri leið þessi misserin en um komandi áramót skal hefja notkun stafræns pósthólfs á landsvísu en sveitarfélagið hefur verið og mun verða virkur þátttakandi í þeirri vegferð. Markmiðið er að stafrænar lausnir verði í boði sama hvaða þjónustu litið er til. Að lokum má geta þess að nýverið var gengið til samninga við Abler til að einfalda skipulag, samskipti, greiðslur og yfirsýn er kemur að íþrótta- og tómstundastarfi og nýtingu styrkja.

Atvinnulíf í Hvalfjarðarsveit er fjölbreytt og hefur sveitarfélagið átt gott samstarf við fyrirtæki á svæðinu, má þar m.a. nefna samstarf við stærsta atvinnusvæðið, Grundartanga. Sveitarstjórn vill eftir sem áður hvetja atvinnurekendur á svæðinu sem sjá sér hag í því að eiga samtal við sveitarstjórn að hika ekki við að hafa samband.

Loftslagsmál eru stór áskorun á alþjóðavísu og líkt og kemur fram í samstarfs- og málefnasamningi sveitarstjórnar þá er Hvalfjarðarsveit þar engin undantekning og skapa þarf jafnvægi í sambýli fólks og náttúru með því að taka skref sem byggð eru á vísindalegri þekkingu í átt að umhverfisvænna samfélagi. Hvalfjarðarsveit leggur þar sitt af mörkum með því meðal annars að eiga fulltrúa í stjórn Rastar, sjávarrannsóknaseturs og Þróunarfélagsins á Grundartanga en Grundartangasvæðið stefnir að því að verða grænn iðngarður með hringrásarhugsun. Leik- og grunnskóli Hvalfjarðarsveitar, Heiðarskóli og Skýjaborg eru grænfánaskólar. Grænfáninn er umhverfismerki sem nýtur virðingar víða í Evrópu sem tákn um árangursríka fræðslu og umhverfisstefnu í skólum. Skólarnir hafa staðið sig einstaklega vel í hinum ýmsu grænfána verkefnum og hafa börnin sýnt eftirtektarvert frumkvæði og ástríðu í verkefnum grænfánans sem og í öðrum verkefnum sem þau hafa tekið sér fyrir hendur.

Jafnréttismál eru í hávegum höfð og jafnréttisstefna sveitarfélagsins var uppfærð fyrir tímabilið 2023-2027. Sveitarfélagið hefur verið með jafnlaunavottun frá árinu 2020 og hlaut nú síðast endurnýjun fyrir 2023-2026.

Á fyrri hluta kjörtímabilsins hafa ýmsar breytingar og framfarir verið í velferðarmálum hjá sveitarfélaginu. Stofnað var öldungaráð sem hefur farið vel af stað og er sveitarfélagið, ásamt fleirum á vegum Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi, að taka þátt í verkefninu Gott að eldast, sem er samfélagslegt umbótaverkefni sem miðar að því að efla þjónustu við eldra fólk og auka samvinnu og samþættingu milli heilbrigðiskerfis og félagsþjónustu. Fleiri verkefni á sviði velferðar hafa einnig farið af stað, t.d., Barnvænt sveitarfélag, innleiðing á farsældarlögunum, samningur um barnaverndaverndarþjónustu Vesturlands, samstarf um velferðarmál á Vesturlandi og samstarf um forvarnir gegn ofbeldi og öðrum afbrotum. Nýlega var hafin vinna við skipun í samráðshóp um málefni fatlaðs fólks.

Sveitarstjórn leggur mikinn metnað í að viðhalda því góða leik- og grunnskólastarfi sem er í Hvalfjarðarsveit og hefur staðið við að veita áfram gjaldfrjálsan leikskóla frá kl. 09-14 og 25% afslátt af fæðisgjöldum. Einróma markmið sveitarstjórnar er að hægt verði að standa við framkvæmdaáætlun sveitarfélagsins þar sem áætlað er að bygging á nýju leikskólahúsnæði í Melahverfi geti hafist í kjölfar byggingar nýs íþróttahúss við Heiðarborg.

Á sviði íþrótta- og tómstundamála hefur sveitarstjórn, líkt og sett var fram í málefnasamningi, komið á auka frístundastyrk fyrir tekjulág heimili með það að markmiði að tryggja að sem flest börn og ungmenni geti tekið þátt í íþrótta- og tómstundastarfi. Auka frístundastyrkurinn hefur verið innleiddur með góðum árangri og hefur nýting á almenna frístundastyrknum aldrei verið meiri. Aukin áhersla á auglýsingar styrkja, á heimasíðu, samfélagsmiðlum sem og veggspjöldum hefur borið góðan árangur.

Innleiðing nýrrar frístundastefnu 2023-2028, sem unnin var á kjörtímabilinu, hefur styrkt frístundastarf í sveitarfélaginu auk þess sem verkefnið SumarGaman hefur fest sig í sessi og bætt frístundastarfsemi yfir sumartímann. Öflugt starf fer einnig fram í Félagsmiðstöðinni 301 sem og í félagsstarfi eldri borgara. Vinna við upplýsingarit fyrir eldri borgara í Hvalfjarðarsveit fer senn að ljúka og verður þá ritið sent á öll heimili í Hvalfjarðarsveit.

Bygging nýs íþróttahúss mun verða enn frekari innspýting í frístunda- og lýðheilsumál í sveitarfélaginu. Heiðarborg verður samfélagsmiðstöð þar sem skóla-, íþrótta-, frístunda-, félags- og samkomustarf fyrir alla aldurshópa mun fara fram í húsnæðinu. Markmiðið er að styðja þannig við og efla þróun íþrótta- og frístundastarfs í sveitarfélaginu, rjúfa félagslega einangrun sem og að styrkja forvarnir, heilsueflingu og almenna lýðheilsu íbúa Hvalfjarðarsveitar. Framkvæmdin er mikið framfaraskref fyrir Hvalfjarðarsveit og stór liður í þeirri metnaðarfullu framkvæmdaáætlun sem liggur fyrir hjá sveitarfélaginu sem endurspeglar vöxt og uppbyggingu til framtíðar í Hvalfjarðarsveit.

Íbúum í Hvalfjarðarsveit hefur fjölgað jafnt þétt og eru nú orðnir 792. Uppbygging á húsnæði í Hvalfjarðarsveit hefur verið umtalsverð þá sér í lagi í Melahverfi og á Krosslandi. Áformað er að halda áfram að tryggja stöðugt lóðaframboð í Melahverfi með fjölbreyttum húsagerðum og íbúðastærðum sem ætlað er að mæta þörfum sem flestra. Vinavöllur í Melahverfi er flott útivistarsvæði sem er vel nýtt til samveru og leiks og eru íbúar og gestir hvattir til að nýta svæðið sem mest og best. Göngustígar hafa verið lagðir víðs vegar um sveitarfélagið, t.d. frá Melahverfi að Eiðisvatni, í Krosslandi, á Innnesinu að Miðgarði en verkefnið hefur verið í gangi síðan árið 2020 og verður haldið áfram á komandi árum þar sem metnaðarfull áætlun um lagningu göngu- og reiðhjólastíga er til staðar. Í sumar verða sett upp ný leiktæki við Hlíðarbæ og er gerð opins svæðis í Krosslandi á framkvæmdaáætlun árið 2025 en að undirbúningur hefjist árið 2024.

Í menningar- og markaðsmálum hefur samstarf og samvinna við einstaklinga, félagasamtök og fyrirtæki í sveitarfélaginu varðandi menningarviðburði stuðlað að fjölgun viðburða og styrkt menningarlíf sveitarfélagsins. Sveitarstjórn vonast til að sjá sem flesta á þeim fjölmörgu viðburðum sem eru á dagskrá í sumar. Til stendur að efla markaðsmál sveitarfélagsins og hefur sveitarstjórn samþykkt að fá aðstoð frá auglýsingastofunni ENNEMM.

Í aðdraganda kjarasamninga 2024 lýsti sveitarstjórn sig reiðubúna til að leggja sitt af mörkum til að ná sameiginlegu markmiði um að kveða niður vexti og verðbólgu. Sveitarstjórn mun fjalla um málið að nýju þegar endanleg útfærsla samningsaðila liggur fyrir.

Hvað varðar álagningu skatta og gjalda, útsvar, fasteignaskatt o.s.fv. þá hefur sveitarstjórn gætt hófsemi við ákvörðun þeirra samliða lögum og reglum þar um. Þjónustugjöld líkt og sorp- og rotþróargjöld er eftir sem áður ætlað að standa undir raunkostnaði eins og lög gera ráð fyrir.

Ofanritað er hvergi nærri tæmandi þar sem fjöldi annarra verkefna, sem ekki er hér getið, hafa komið á borð sveitarstjórnar. Hægt er að lesa fundargerðir, fréttabréf og annað áhugavert efni er varðar sveitarfélagið inni á heimasíðu sveitarfélagsins, www.hvalfjardarsveit.is og hvetjum við alla til að gerast áskrifendur að fréttum sveitarfélagsins með því að skrá sig á póstlistann.

Sveitarstjórn vill að lokum þakka starfsfólki sveitarfélagsins, fulltrúum í nefndum og ráðum, íbúum, landeigendum, frístundaeigendum og öðrum hagsmunaaðilum fyrir gott samstarf á fyrri hluta kjörtímabilsins og hlakkar til komandi tíma saman.

 

Gleðilegt sumar, kærar kveðjur,

Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar