
Bréf til Lárusar
Jón Viðar Jónmundsson
Lýsing Magnúsar á Gilsbakka á fjárstofninum og fjárskiptunum 1951
Litlu áður en Bréf til Láru fagnaði 100 ára afmæli frétti ég hjá Ólafi Magnússyni á Gilsbakka að faðir hans Magnús Sigurðsson hefði síðustu misserin sem hann lifði dundað sér við texta um fjárskiptin 1951 sem stílaður væri sem bréf til Lárusar G. Birgissonar ráðunautar. Ólafur sendi okkur Lárusi góðfúslega textann. Við sáum strax að þetta voru gulltöflur og greinin ætti erindi til allra áhugamanna um íslenskra sauðfjárrækt sem reynslan hefur kennt okkur að eru fjölmargir. Fyrir Borgfirðinga og Vestfirðinga hefur greinin tvöfalt gildi.
Það hefur ráðist að Magnús Magnússon hýsi greinina með smá viðbótum af gömlum myndun á vef Skessuhorns þar sem hún er nú opin til aflestrar öllum sem vilja.

Magnús Sigurðsson á Gilsbakka gat rakið ættir alls fjár á bænum aftur til fjárskiptanna 1951. Ljósm. úr safni Skessuhorns
Við Lárus báðir höfðum notið þess að hlýða á ýmsar frásagnir Magnúsar á Gilsbakka af fjárskiptunum og mörgu öðru sem tengist eldri fjárrækt í Borgarfirði auk margra heimsókna í fjárhúsin á Gilsbakka þar sem hann þekkti hvern grip, ættir hans til fjárskipta sem oft endaði með marki fjárskiptakindarinnar, en mörkin á lömbunum sem þangað komu haustið 1951 voru um 100.
Ég hef engum kynnst sem hafði viðlíka þekkingu á íslenskri sauðfjárrækt og Magnús nema Halldóri Pálssyni búnaðarmálastjóra og Stefáni Aðalsteinssyni, sauðfjárvísindamanns á RALA. Ógleymanlegt var að hlýða á umræður Magnúsar og Halldórs um sauðfjárrækt í fjárhúsunum á Gilsbakka haustið 1971 þegar Halldór bauð mér þangað með sér og Sigríði Klemensdóttur konu hans í einstaka heimsókn.
Snúum okkur að bréfinu til Lárusar. Því er skipt í marga afmarkaða kafla og málsnilldin meiri en sést almennt í dag. Ólafur sagði að Magnús hefði skrifað þetta beint á tölvuna eftir minni án þess að styðjast við nokkrar heimildir. Ég tel mig þekkja sumt af efninu og sá hvergi neitt sem ekki var hárrétt.
Magnús byrjar það með lýsingu á fjárbúskap á Gilsbakka meðan hann var þar barn um 1930. Hann greinir frá því að Gilsbakki er sennilega alfyrsta bú landsins sem tekur upp einstaklingsmerkingar á sauðfé. Það varð í framhaldinu grunnur heimsþekktra rannsókna Halldórs á erfðamótstöðu gegn mæðiveiki, sem leiddi til þróunar sauðfjársæðinga til dreifingar á mótstöðufé sem var fyrsta beiting búfjárerfðafræði í baráttu við búfjársjúkdóma í heiminum.
Í framhaldinu lýsir hann baráttunni við mæðiveiki og fleiri sjúkdóma. Minnist ekki jafn lifandi lýsinga af þessari illvígu baráttu. Skemmtilegur kafli er um forystufjárrækt í Hvítársíðu. Síðan fjallað um niðurskurðurinn.
Þá kemur umfjöllun um undirbúning fjárskiptanna. Uppsetningu varnargirðinganna. Undirbúningur fjárkaupanna. Skipun allra nefnda vegna framkvæmdanna og fjárkaupamanna sem sendir eru norður í Ísafjarðadjúp að kaupa lömb. Þar voru engir vegir, ferðast milli svæða á smábátum og á landi á hestbaki og tveimur jafnfljótum. Þeir leita lengst norður í Jökulfjörðu þar sem enn eru vegleysur.
Hann lýsir fólki og sauðfé þar sem farið er. Sérstaklega áhugaverð er lýsing af fjárkaupum á Eyri í Seyðisfirði, þar sem þeir veita heimafólki aðstoð við síðbúinn heyskap. Þarna velur Magnús Nökkva á Hesti einn mesta kynbótahrút landsins enn í dag og þann eina af Hestshrútunum sem Halldór Pálsson ekki valdi en treysti Magnúsi best fyrir fjárvalinu á Eyri sem hann hafði ekki tíma til að sinna sjálfur.
Í framhaldinu lýsingar á smölun lambanna sem keypt voru á þessu strjálbýla svæði og smalað saman á margskonar fleytum. Komst að lokum í skip. Magnús gætti þar lambanna suður á Akranes. Þá tóku við flutningabílar sem keyrðu lömbunum, lengst alla leið í Gilsbakka. Þar tóku við skipti á kaupabúin eftir reglum fjárkaupanefndarinnar innan sveitar. Fullyrði að jafn ítarlega lýsingu á öllum þessum ferli er hvergi að finna. Ómetanlegur fróðleikur.
Lokakaflinn er um lömbin sem komu suður í Borgarfjörð en ég fullyrði að flestar kindur á Íslandi í dag rekja ættir til þessara lamba. Ég fullyrði að þó ég þekki talsvert til þessara kinda hefði ég ekki haft minnstu hæfileika til að skrifa nema brot af þessari sögu og það sem ég veit hef ég allt frá Magnúsi og Halldóri. Hér reiðir Magnús fram óborganlega kafla í fjárræktarsögu Íslands.
Fyrir Borgfirðinga og fólk fyrir vestan er kaupbætir ómetanlegar lýsingar á mörgum tugum ef ekki hundraði fólks á allri þessari vegferð oft með ættum þess. Má að auki fræðast um mat Magnúsar Þorteinssonar á Húsafelli ferðafélaga hans um Djúpið á höfuðlagi hjá heimasætum þar vestra. Þetta var sérgrein nafna hans mestan hluta ævi hans, þ.e. mælingar á höfuðlagi.
Lýk þessari stuttu kynningu á meistaraverki Magnúsar á Gilsbakka, sem nú stendur öllum sem áhuga hafa til boða að kynna sér í boði nafna hans sem ritstýrir Skessuhorni og hefur komið gullkistunni fyrir á vef blaðsins, með að hvetja alla til að lesa þessa einstöku grein.
Jón Viðar Jónmundsson