Magnús Sigurðsson á Gilsbakka gat rakið ættir alls fjár á bænum aftur til fjárskiptanna 1951. Ljósm. úr safni Skessuhorns

Um fjárstofninn á Gilsbakka og fjárskiptin 1951

Vakin er athygli á að hér á vefnum er nú komin í birtingu opin grein sem Magnús Sigurðsson á Gilsbakka skrifaði laust eftir aldamótin. Að stærstum hluta fjallar Magnús um sauðfjárrækt heima fyrir, áhrif mæðiveikinnar, niðurskurð á fjárstofni bænda í héraðinu og kaup á líflömbum vestur á fjörðum haustið 1951. Greinin er óvenjulega löng og ítarleg og af þeim sökum er hún eingöngu birt á vefnum, en ekki á prenti, hvað sem síðar verður. Jón Viðar Jónmundsson fv. ráðunautur fylgir birtingu greinarinnar úr hlaði og skrifar m.a: „Litlu áður en Bréf til Láru fagnaði 100 ára afmæli frétti ég hjá Ólafi Magnússyni á Gilsbakka að faðir hans Magnús Sigurðsson hefði síðustu misserin sem hann lifði dundað sér við texta um fjárskiptin 1951 sem stílaður væri sem bréf til Lárusar G. Birgissonar ráðunautar. Ólafur sendi okkur Lárusi góðfúslega textann. Við sáum strax að þetta voru gulltöflur og greinin ætti erindi til allra áhugamanna um íslenskra sauðfjárrækt sem reynslan hefur kennt okkur að eru fjölmargir. Fyrir Borgfirðinga og Vestfirðinga hefur greinin tvöfalt gildi,“ skrifar Jón Viðar.