Fréttir
Skolað þurfti út vatni í Grábrókarveitu 18. október síðastliðinn. Meðfylgjandi mynd sýnir vatnsgæðin í brunahana við Svignaskarð. Í orlofshúsabyggðinni voru meira og minna öll heimilistæki óvirk vegn þess að síur fylltust og vatnið ódrykkjarhæft.

Veitur segjast vera að vinna að lausn vegna Grábrókarveitu

Skessuhorni barst í dag skriflegt svar frá samskiptastýru Veitna vegna fréttar hér á vefnum í gær um neysluvatnsmál í Grábrókarveitu. Þar segir: „Veitum þykir miður að erindi Vilhjálms Hjörleifssonar, íbúa á Varmalandi í Borgarfirði, frá 20. október hafi ekki verið svarað. Það voru mistök af okkar hálfu og okkur þykir það leitt. Við höfum verið í sambandi við Vilhjálm og tjáð honum að við höfum fullan skilning á málinu og Veitur séu að gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja gæði neysluvatnsins.

Frá síðasta svari okkar við frétt Skessuhorns, þar sem við fórum ítarlega yfir málið, höfum við meðal annars tekið ný vatnssýni og mælt magn svifagna, kornastærðardreifingu og gruggmagn. Við eigum von á greiningu frá Ramböll ráðgjöfum í Svíþjóð um aukna síun en agnirnar eru mjög smáar. Ramböll vinnur nú að því að kanna hvaða tæknilegu valkostir standa til boða fyrir Grábrókarveitu og samhliða því stefnum við á enn frekari sýnatökur. Okkar vísindafólk mun komast til botns í því innan tíðar. Þá erum við einnig að leita annarra leiða til að tryggja hreint neysluvatn á svæðinu til skamms og langs tíma,“ skrifar Rún Ingvarsdóttir samskiptastýra Veitna.