Fréttir
Skolað þurfti út vatni í Grábrókarveitu 18. október síðastliðinn. Meðfylgjandi mynd sýnir vatnsgæðin í brunahana við Svignaskarð. Í orlofshúsabyggðinni voru meira og minna öll heimilistæki óvirk vegn þess að síur fylltust og vatnið ódrykkjarhæft.

Engin viðbrögð frá Veitum við kvörtun um ónothæft neysluvatn

Vilhjálmur Hjörleifsson íbúi á Varmalandi í Borgarfirði sendi opið bréf til Veitna 20. október síðastliðinn. Í gær, sunnudaginn 9. nóvember, hafði hann engin viðbrögð fengið. Þar ítrekar Vilhjálmur afar slök gæði neysluvatns í Grábrókarveitu, sem meðal annars er lögð um sveitir neðan við Hreðavatn og að Borgarnesi. Í bréfinu skrifar Vilhjálmur m.a: „Laugardaginn 18. október sl. voru vatnsgæðin með slakasta móti; brúnleitt vatnið minnti frekar á vatnsgæði þau sem íbúar á vanþróaðri stöðum í Afríku þurfa að láta sér nægja, og við sjáum stundum fréttir af í fjölmiðlum. Seinni part dags fór að bera á brúnleitu vatni úr krönum á heimili mínu á Varmalandi. Ég var að þvo þvott og hengja út og á sama tíma að þvo stóra potta sem notaðir eru við sláturgerð og þess háttar. Það var svo sem hægt að „þvo“ pottana, en tauið, var geymt til næsta dags, þar til að grugginu hafði slotað. Gott og vel. Allt hvítt postulín, baðkar, handlaugar og salerni báru þess merki hve mikið grugg var í vatninu.  Ég vissi sem var að með því að „láta renna“ gæti verið að þessi óværa skolaðist út einhvern tímann dagsins. Ef heppnin væri með mér gæti ég kannski þvegið þvottinn fyrir kvöldið. Það fór þó ekki svo.“

Vilhjálmur skrifar að rétt um kvöldmatarleitið hafi brúnleitt vatnið enn verið að koma úr veitunni. „Þá hringdi síminn. Hótelstjórinn á Hótel Varmalandi spyr hvort ég viti, „hver andskotinn“ gangi á? Það komi brúnleitt vatn úr öllum krönum á hótelinu. Ég vissi hvað klukkan sló. Gruggið var búið að vera það lengi í gangi að það var búið að yfirtaka vatnstankinn á hótelinu. Hótelið hefur jöfnunartank, sennilega 20.000 til 30.000 lítra, sem dælt er úr neysluvatni fyrir hótelið og er jafnframt forðabúr fyrir vatnsúðakerfi hússins. Þó að „drulluskot“ eins og stundum koma frá veitunni, komi í tankinn, þá hverfur það í þetta miklu vatnsmagni og verður ekki sýnilegt. Þarna var ekki um „skot“ að ræða heldur langvarandi ástand. Um 100 manns voru að ganga til borðs og öllum átti að bera hreint íslenskt kranavatn, eins og venjan er á flestum íslenskum veitingastöðum. Ferðamenn eru hvattir til að drekka hreint íslenskt kranavatn og það hafa Íslendingar ástundað alla tíð. Það þótti ekki boðlegt, á Hótel Varmalandi, að bera fram vatn sem líktist frekar tei, eða vatni úr drullupolli, og sem betur fer var Bónus búðin í Borgarnesi enn opin og nokkuð birg af vatni í plastflöskum. Lagerinn var keyptur upp. Hver einasta flaska! Ef salerni var sturtað, kom móleitt vatn í það, og þeir sem burstuðu tennur fyrir kvöldið, fengu sama skamt. Hringt var í vaktnúmer Veitna.  Einhverjir þeir sem hringdu, fengu símtal frá einhverjum sem var á vakt (ég fékk ekki símtal þó). Hótelstjóranum var sagt að vatnið gæti verið svona vegna jarðskjálfta eða mikilla rigninga. Hvorugt höfðum við orðið vör við. Bakvaktarmaðurinn ráðlagði að; „láta renna“.  Sem var þegar byrjað heima hjá mér, í öðrum húsum og á hótelinu. En að tæma 20.000 – 30.000 lítra tank, tekur sinn tíma.  Því verki var þó lokið fyrir miðnættið.“

Í erindi sínu til Veitna 20. október skrifar Vilhjálmur að hann gruni að þetta ástand hafi verið vegna útskolunar á kerfinu sem ástunduð er tvisvar á ári, og stóð yfir þegar þetta ástand varði 18. október. „Ég held að þeir rúmlega 100 gestir sem voru á hótelinu á Varmalandi hafi ekki vitað af því. Þú getur kannski svarað því fyrir mig. Ég þekki ekki allar vatnsveitur á landinu, en hef ekki heyrt af neinni sem þarf að skola út reglulega, vegna óhreininda í vatninu. Og eins og áður láta notendur þetta yfir sig ganga og kvarta ekki. Grábrókarveita hefur verið í notkun frá árinu 2007. Allt frá byrjun hefur verið ljóst að grugg í vatninu er verulegt og tilraunir til að laga það hafa ekki skilað árangri.“

Að endingu sendir Vilhjálmur spurningar til Veitna. Meðal annarra: „Hvað er áætlað að halda lengi lífi í þessum ónothæfu vatnsöflunar-borholum í Grábrókarhrauni?“ Og einnig: „Eru uppi áætlanir um að leysa vandamálið með einhverjum hætti? Ef svo er, þá hverjar?“

Í gær sendi Vilhjálmur ítrekun í opnu bréfi til Veitna í ljósi þess að hann hafði engin viðbrögð fengið frá fyrirtækinu við fyrra bréfi sem hann sendi 20. október.

Skessuhorn hefur heimildir fyrir því að mikil vandræði hafa skapast víðar á veitusvæðinu vegna gruggs í neysluvatni frá Grábrókarveitu. Meðal annars í sumarhúsahverfinu í Svignaskarði.