
Oddvitar sveitarstjórnanna ánægðir með niðurstöðuna
Eins og fram kom í frétt Skessuhorns í gærkvöldi samþykktu íbúar í Borgarbyggð og Skorradalshreppi tillögu sameiningarnefndar sveitarfélaganna um sameiningu. Í kosningunum 16. maí 2026 verður því kosið í sameinuðu sveitarfélagi. Oddviti Skorradalshrepps og forseti sveitarstjórnar Borgarbyggðar fagna bæði niðurstöðu gærdagsins.
Munum fá rödd í okkar nærsamfélagi
Jón E Einarsson oddviti Skorradalshrepps kveðst afar ánægður með þessa afgerandi niðurstöðu sem fékkst í kosningunni. „Ég er ánægður með úrslitin að því leiti til að það eru rúm 59% íbúa sem völdu sameiningu. Góður meirihluti tekur þessa ákvörðun. Ég er ekki í minnsta vafa um að þetta var besta niðurstaðan til dæmis ef litið er til stefnu stjórnvalda um að stækka þessar stjórnsýslueiningar sem sveitarfélögin eru, þetta er einfaldlega það sem koma skal. Þá er í mínum huga eina staðan í myndinni að sameinast Borgarbyggð en ekki í einhverja aðra átt þegar litið er til nærþjónustu á borð við skóla, brunavarnir og annað í samfélaginu. Þótt við séum fá hér í dalnum munum við eftir sameiningu allavega fá rödd í samfélaginu sem við höfðum í raun ekki, getum til dæmis tjáð okkur um mál sem snerta alla. Ég nefni sem dæmi áform um vindorkuver,“ segir Jón Eiríkur Einarsson oddviti Skorradalshrepps.
Lítum björtum augum til framtíðar
Guðveig Lind Eyglóardóttir forseti sveitarstjórnar Borgarbyggðar sagði í yfirlýsingu í gærkvöldi: „Ég óska íbúum til hamingju. Ég er sannfærð um að hér liggi fyrir farsæl niðurstaða fyrir bæði sveitarfélögin og með þessari ákvörðun höfum við stigið jákvætt skref inn í framtíðina. Sameinað sveitarfélag mun hafa góðan slagkraft til að þjónusta íbúa þess. Eftir sem áður verður áhersla okkar á velferð allra íbúa, stuðning við öflugt atvinnulíf, trausta innviði og að skapað góð búsetuskilyrði fyrir næstu kynslóðir. Við fögnum í dag og lítum björtum augum til framtíðar fyrir sameinað sveitarfélag Borgarbyggðar og Skorradalshrepps.“