Fréttir
Atkvæði voru talin í Hjálmakletti í Borgarnesi. Ljósm. mm

Sameining samþykkt í Borgarbyggð og Skorradalshreppi

Talningu atkvæða í íbúakosningu um sameiningu Skorradalshrepps og Borgarbyggðar lauk klukkan 19:30 í kvöld, en kjörstöðum var lokað klukkan 18. Úrslit fóru þannig að sameining var samþykkt í báðum sveitarfélögunum með talsverðum mun.

Í Borgarbyggð var kjörsókn 15,82% og greiddi 501 íbúi atkvæði. Já sögðu 417 eða 83,24%, nei sögðu 82 (16,37%) og tveir seðlar voru auðir. Í Skorradalshreppi var kjörsókn 88,5% og greiddu 54 atkvæði. Já sögðu 32 eða 59,26% en nei sögðu 22 eða 40,74%.

Þessi úrslit þýða að við kosningarnar 16. maí 2026 verður kosið í sameinuðu sveitarfélagi Borgarbyggðar og Skorradalshrepps.

Sveinbjörn Eyjólfsson formaður kjörstjórnar.

Talningarfólk endaði á að telja 54 atkvæði sem greidd voru í Skorradalshreppi. Þegar formaður kjörstjórnar hafði staðfest úrslit var ekki laust við að niðurstaðan kæmi flestum viðstöddum á óvart.