Hólmfríður Friðjónsdóttir, eða Fríða eins og hún er oft kölluð, fluttist búferlum frá Stykkishólmi í Reykholt í Borgarfirði þegar henni bauðst staða kórstjóra Freyjukórsins árið 2019. Hólmfríður segir sig aldrei hrædda við að segja já og er dugleg að taka stökkið þegar ný tækifæri bjóðast. Hún hefur mikla ástríðu fyrir kórastarfi en í dag stýrir hún fimm kórum; Freyjukórnum, Reykholtskórnum og Gleðigjöfunum í Borgarfirði, auk karlakórsins Heiðbjartar og kvennasveitarinnar Skaða í Staðarsveit. Hún kennir svo þýsku við Fjölbrautaskóla Snæfellinga og býður upp á kennslu í einsöng.
Hólmfríður er alin upp í Reykjavík en flutti vestur í Stykkishólm árið 2003. Hún lauk BA prófi frá HÍ árið 1989 í almennum málvísindum, þýsku og uppeldis- og kennslufræði auk 8. stigi í einsöng frá Tónlistarskólanum í Reykjarvík árið 1996. Hólmfríður á þrjár uppkomnar dætur og kærasta sem býr í Reykjavík. ,,Ég bjó í Stykkishólmi í 17 ár og dafnaði þar mjög vel. Ég hef kennt þýsku við FSN frá stofnun skólans 2004, ég kenndi líka við Tónlistarskóla Stykkishólms á klassískan gítar, söng og smávegis á píanó. Svo fór ég að dafna í kórastarfinu,“ segir Hólmfríður. ,,Ég er núna búin að vera tæplega 20 ár í því og ýmsir kórar og sönghópar sem hafa orðið til á leiðinni,“ segir Fríða.
Varð ung heilluð af tónlist
Ertu alin upp á miklu tónlistarheimili? ,,Það var mikið af söngfólki í móðurfjölskyldunni minni. Þau voru ættuð norðan af Hornströndum en mamma var fædd í Þverdal í Aðalvík. Afi minn og systkini hans sungu mikið, þeir voru fjórir bræður samtímis í Karlakór Reykjavíkur og það var mikið sungið þegar fjölskyldan kom saman. Ég hef alltaf búið yfir ást á tónlist og orðið fyrir miklum áhrifum af henni. Það var ekki píanó á mínu bernskuheimili en ég hafði alltaf svakalegan áhuga og ástríðu fyrir því að læra á píanó. Þegar ég kom inn á heimili þar sem var píanó gat ég starað á hljóðfærið með aðdáun,“ segir Fríða.
,,Fyrsta hljóðfærið mitt var gítar. Ég fékk gítar í jólagjöf þegar ég var níu ára og stundaði klassískt gítarnám í tíu ár, síðast hjá Símoni Ívarssyni. Svo fór mér að þykja það púkalegt á unglingsárunum að vera með gítartösku í strætó. Þá hóf ég að syngja í Neskirkju en Reynir Jónasson var organisti þar. Honum leist einhvern veginn þannig á mig að hann sendi mig í tíma til Guðrúnar Tómasdóttur söngkonu, algjört gersemi sú kona og hún hafði ofboðslega mikil áhrif á mig. Hún var með svo fallega nærveru í söngnum og manni leið svo vel hjá henni. Ég hef síðan þá oft hugsað; ef einhvern tímann einhverjum söngvara liði eftir tíma hjá mér eins og mér leið þegar ég kom frá Guðrúnu, þá hefði tíminn verið góður og haft tilgang,“ segir Fríða.
Símtalið sem hrinti öllu af stað
Hólmfríður segir eitt símtal hafa orðið til þess að hún ákvað að flytja í Borgarfjörðinn. ,,Ég á þrjár dætur sema allar voru farnar að heiman og ég eignaðist yndislegan kærasta 2019, Oddur Jakobsson heitir hann. Við kenndum bæði við Kvennaskólann á sínum tíma en hann er í dag hagfræðingur Kennarasambandsins. Við urðum kærustupar og ég gat ekki hugsað mér að flytja í bæinn en þetta var orðið svolítið langt á milli til hans og stelpnanna minna. Það sem dregur mig hingað er að ég fékk símtal frá Elínu Matthildi Kristinsdóttur á Skálpastöðum, sem spurði mig hvort ég væri til í að skoða það að taka við Freyjukórnum. Ég varð rosalega glöð að fá þetta tilboð og hugsaði að ég væri greinilega komin með orðspor sem kórstjóri og fannst það gaman. Þá settist ég niður á mínu góða heimili fyrir vestan og hugsaði með mér hvort ég ætti ekki bara að taka þetta skref núna og flytja í Borgarfjörðinn.“
Það blundar í mér Borgfirðingur
Í framhaldinu fór Hólmfríður að skoða hvað væri til sölu í Reykholti. ,,Þar var yndislegt parhús til sölu. Þetta er sem sagt nýbygging en ég keypti þetta glænýtt. Ég kom hingað með Oddi og hitti þau Sigurð Árna og Ingibjörgu Ingu sem byggðu húsið. Þau tóku mjög vel á móti mér þetta yndislega og góða fólk og mér leist rosalega vel á eignina og varð ákveðin í að fylgja þessu eftir.
Það blundar nefnilega í mér Borgfirðingur því Snorri á Fossum er náfrændi minn, mamma og Snorri eru sem sagt stystkinabörn og ég var í sveit þar þegar ég var yngri. Ég á mjög fallegar minningar frá þeim tíma, t.d. þegar við vinkonurnar stálumst á sveitaböllin á puttanum. Hjartað mitt slær svolítið hérna í gegnum þessar bernsku- og unglingsminningar frá Fossum,“ segir Fríða blíðlega.
Sterk tilfinning réði ríkjum
Þegar Hólmfríður var búin að skoða parhúsið í Reykholti ákvað hún að gera sér ferð ein í Reykholt til að gera upp hug sinn. ,,Það er nefnilega svo oft þannig að þegar það læðast að manni hugmyndir og maður er að fara að taka stóra ákvörðun, þá finnst mér best að vera ein með sjálfri mér og finna tilfinninguna. Ég gerði mér ferð í Reykholt úr Hólminum og keyrði meira að segja Skógarströndina og Bröttubrekku til að læðast úr bænum. Þegar ég keyrði upp Reykholtsdalinn og sá kirkjuna, tók staðurinn á móti mér þannig að ég fór að gráta. Ég fann einhverja tilfinningu í brjóstinu sem talaði svo sterkt til mín, það var þetta sem ég átti að gera og ég fékk algjöra fullvissu fyrir því að ég væri að taka rétta ákvörðun. Þetta var í júní 2019 og ég setti húsið mitt á sölu í beinu framhaldi. Ég flutti svo í Reykholt 22. ágúst og var þá búin að selja húsið mitt í Stykkishólmi og segja upp starfinu við Tónlistarskólann. Mér líður mjög vel með þessa tilhögun á lífinu, við Oddur eigum tvö heimili og keyrum á milli,“ segir Hólmfríður.
Fór hægt af stað
Þegar Hólmfríður flutti í Reykholt hafði hún verið búin að festa sér starf sem kórstjóri Freyjukórsins og Reykholtskórsins. ,,Svo fékk ég líka símtal um þetta leiti frá formanni Gleðigjafanna sem er 60+ kór í Borgarnesi, mjög skemmtilegur þrjátíu manna kór. Ég ætlaði aldeilis að fara að taka til hendinni og hafa gaman, en svo kom Covid. Nánast í tvö ár var ekkert kórastarf. Það sem ég gerði þessi tvö ár var að æfa mig í kirkjunni en ég syng mikið sjálf. Þetta var í rauninni mjög gott tímabil, ég var búin að hafa ofboðslega mikið að gera fyrir vestan og var búin að vera í flengspreng um allt Snæfellsnesið á kóræfingum og sinna þessum tveimur störfum í Tónlistarskólanum og í FSN. Kórastarfið fór svo aðeins af stað eftir áramótin í fyrra en í rauninni ekki almennilega fyrr en núna síðastliðið haust,“ segir Fríða.
Mikilvægt að rækta mannauðinn
Freyjukórinn hélt jólatónleika í desember ásamt því að syngja í útvarpsmessu á Mæðradaginn. Hólmfríður og kórarnir hennar hafa þess vegna loks fengið að sýna afrakstur og syngja fyrir sveitunga. ,,Ég hef sérstaka ánægju af því að rækta mannauðinn, ég hef verið kennari allt mitt líf og mínar yndislegustu stundir í lífinu eru góðar söngæfingar þar sem öllum líður vel. Fólk kemur saman og nýtur samveru í ákveðinn tíma til að syngja saman, búa til fallegan samhljóm og láta sér líða vel í samfélagi hvert við annað. Þetta er svo göfugt markmið í sjálfu sér, og æfingarnar eru skemmtilegar og góðar.
Mér finnst líka mjög gaman að skima eftir góðu fólki og virkja það. Ég lít þannig á að okkur sem störfum á þessum vettvangi, eins og kórstjórar, beri skylda til að opna farveg fyrir þá sem fá kannski annars ekki tækifæri og það er ákveðin kúnst að búa þau til. Það voru t.d. margir sem tóku þátt á jólatónleikum Freyjukórsins um daginn en við fengum ungt fólk til liðs við okkur og þetta er það sem kórastarf á að snúast um. Það á að vera kvikt og lifandi, skapa hamingju og ekki má taka hlutunum of hátíðlega, það er hættulegt. Þá er maður endalaust að skamma fólk fyrir að syngja ekki rétt og að leiðrétta of mikið. Það er ákveðin kúnst að láta fólki líða vel og reyna að láta bætingar koma af sjálfu sér með tíð og tíma.“
,,Bannað að syngja fallega“
Hólmfríður leggur mikið uppúr því að hverjum og einum kórmeðlim líði vel á æfingum og fái að njóta þess að beita sinni rödd ,,Manneskjan á að skynja að hún geti sungið frjálslega en jafnframt fengið leiðsögn um hvernig hún eigi að beita röddinni og finna að hún hefur rödd í kórnum sínum. Ég segi stundum við kórana mína að það sé bannað að syngja fallega, ef fólk vandar sig of mikið í söngnum fer það að halda aftur af sér. Við viljum að tónarnir flæði, þá kemur helmingi meiri hljómur. Svo er það kórstjórans að móta,“ segir Hólmfríður en hún segir mikilvægt að söngfólk hafi jákvæða upplifun af kórastarfi og fái að nýta raddir sínar.
Íklæðist kórstjórahlutverkinu
,,Ég hef endalausa ástríðu fyrir kórastarfinu,“ segir Fríða en hún hefur alltaf unun af því að mæta á kóræfingar. ,,Maður hefur ákveðin hamskipti. Kannski eins og leikari sem er að stíga á svið, ég íklæðist kórstjóranum Hólmfríði sem er örgeðja, glaðlynd og tekur sig ekki of alvarlega. Maður kemur með ákveðna orku, ég gef orku og fæ orku frá öðrum. Ef allir fara glaðir heim af kóræfingu þá hefur markmiðinu verið náð. Á meðan ég hef þennan neista þá held ég áfram að gera þetta.“
Hélt tónleika með viku fyrirvara
Hólmfríður syngur mikið sjálf en á æfingum notast hún gjarnan við undirleik sem finna má á Youtube eða Spotify í stað meðleikara. ,,Það er allur undirleikur til á Youtube, hvort sem það er píanó eða sinfóníuhljómsveit, við allt mögulegt, aríur og ljóð. Elsta dóttir mín er söngkona, Lilja Margrét Riedel, og rétt fyrir jólin 2021 var ég að æfa mig í kirkjunni og hugsaði hvað ég væri nú í góðu formi. Ég hringdi í Lilju og við ákváðum að halda tónleika viku seinna. Við sungum heila tónleika bara með undirleik á Youtube í hátalara.
Ég hef samt aðallega verið að halda tónleika með frönskum organista sem heitir Fabien Fonteneau,“ segir Hólmfríður en skemmtileg saga fylgir þeirra kynnum. ,,Ég vaknaði í Stykkishólmi eftir tónleika í júní 2007 og fékk mjög sterka tilfinningu fyrir því að ég hefði ekki gengið frá hljómflutningstækinu mínu í kirkjunni. Þannig að ég skaust upp í kirkju og sá að ég hafði auðvitað gengið frá þessu tæki. En ég hugsaði með mér að fyrst ég væri komin væri best að ég syngi aðeins. Ég fór að syngja Händel aríuna Wherever you walk og þegar ég var hálfnuð með hana komu frönsk hjón inn í kirkjuna. Þau voru á eftirlaunum, hann fyrrum prófessor við Háskólann í Toulouse og þau miklir Íslandsvinir. Þeim fannst ég syngja mjög fallega og spurðu hvort ég vildi ekki koma til Frakklands og halda tónleika þar en þau sögðust þekkja organista sem gæti spilað með mér og ég gæti þá fengið að dvelja hjá þeim. Ég hafði vit á því að segja ,,já“ og er núna búin að fara tíu sinnum til Frakklands til að halda tónleika með þessum organista sem þau komu mér í samband við. Hann hefur líka komið til Íslands og við höfum haldið nokkra tónleika hér á landi.“
Enginn mætti á uppáhalds tónleikana
Flottustu tónleikar sem Hólmfríður hefur sungið voru tónleikar í franska þorpinu Galliac í Pyreneafjöllunum, sem enginn mætti á. ,,Þarna vorum við Fabien ásamt trompetleikara. Þetta var í stórri kirkju en enginn kom á tónleikana. Ég stóð þarna við orgelið í þessari stórkostlegu kirkju og söng mínar aríur og upplifði eitthvað merkilegt. Þetta voru held ég fallegustu tónleikar sem ég hef sungið, en það var enginn í kirkjunni, nema við þrjú! Það skipti bara ekki máli, ég söng og hljómurinn í röddinni fyllti út í kirkjuna, sem eins og hlustaði og meðtók. Þetta var stórkostleg upplifun. Stundum nær maður einhverri tenginu þegar maður er að syngja og fer að hugsa um t.d. eitthvað sem maður hefur upplifað eða um einhvern sem manni þykir vænt um, um dýptina í listinni sem þarf stundum sitt einkarými,“ segir Fríða.
Vill skapa tækifæri
Hólmfríður er svo með ákveðnar framtíðarhugmyndir en hana langar næst að nálgast ákveðinn hóp. ,,Það er fullt af fólki í samfélaginu sem hefur verið í söngnámi, sungið gott próf og fengið fallega umsögn, en svo tekur ekkert við. Það þarf að skapa tækifæri og mig langar að nálgast þetta fólk, sem er kannski bara í vinnunni sinni en hefur ástríðu fyrir því að syngja. Það ólgar í mér að koma einhverju á koppinn fyrir þennan hóp en hér í Borgarfirði erum við með sönghús út um allt. Það þarf bara að smella fingri,“ segir Fríða.
Listina á ekki að loka inni
Hólmfríður talar fallega um tónlistina og greinilegt að hún hefur djúpa tengingu við tónlistarheiminn. ,,Tónlistin er skapandi afl og það má ekki setja hana inn í einhvern kassa. Maður þarf alltaf að vera tilbúinn að breyta aðeins og bæta, gera eitthvað nýtt og kalla nýtt fólk til. Listin vill ekki láta loka sig inni, hún þarf að flæða og þá getur eitthvað nýtt orðið til, sem gerist svo oft á góðum kóræfingum,“ segir Fríða.
Aðspurð segir Hólmfríður aldrei að vita nema hún bæti við sig verkefnum á næstu misserum. ,,Það er aldrei að vita nema einhverjar breytingar verði hjá mér. Ég hef annars alveg nóg að gera, en sem stendur hef ég mestan áhuga á að leika við Borgfirðinga og rækta samband mitt við söngfólk á svæðinu. Mig langar að dafna hér á meðan ég hef þessa ástríðu, að skapa eitthvað nýtt, búa til nýja farvegi og bæta við nýrri mold því það þarf alltaf að umpotta. Mannsandinn vill dafna en það þarf að drena og umpotta og raða kannski plöntunum upp á nýjan hátt,“ segir Hólmfríður að endingu.