Rebekka Rán var öflug á móti KR og setti niður 25 stig. Hér í leik gegn Aþenu á síðasta tímabili. Ljósm. sá

Snæfellskonur töpuðu naumlega gegn KR í fyrsta leik

Snæfell og KR mættust í gærkvöldi í fyrstu umferð 1. deildar kvenna í körfuknattleik og var leikurinn í Stykkishólmi. Snæfellskonur voru án nýja bandaríska leikmannsins síns, Cheah Rael-Whitsitt, sem var ekki komin með leikheimild en hún ætti að ná næsta leik ef allt gengur að óskum. KR-ingar hafa bætt vel við leikmannahóp sinn og fengu meðal annars framherjann Violet Morrow sem kom til liðsins frá Aþenu.

Viðureignin fór vel af stað, liðin skiptust á körfum í byrjun leiks og leikurinn nokkuð hraður. KR-ingar voru að tapa boltanum klaufalega í sókninni en bættu það upp með nokkrum þriggja stiga körfum. Snæfellskonur náði að opna vörn gestanna ágætlega en voru ekki að hitta nægilega vel. Staðan 23-28 fyrir KR eftir fyrsta leikhluta og útlit fyrir spennandi leik. Í öðrum leikhluta voru heimakonur miklu betri, komust í góðan gír og undir lok hans náðu þær 12-3 kafla undir styrkri stjórn fyrirliðans Rebekku Ránar Karlsdóttur, staðan vænleg í hálfleik fyrir Snæfell, 50-41.

Í byrjun þriðja leikhluta gekk liðunum illa að hitta og kom fyrsta karfan utan af velli ekki fyrr en þegar tæpar tvær mínútur voru eftir af leikhlutanum. KR-ingar spiluðu góða vörn og voru grimmar sem skilaði þeim líflínu inn í leikinn, staðan fyrir fjórða og síðasta leikhlutann, 59-58. Spennan hélt áfram í fjórða leikhluta og skiptust liðin á að ná forystunni nánast allan leikhlutann. Þegar níu sekúndur voru eftir af leiknum kom Violet Morrow KR-ingum tveimur stigum yfir og undir lok leiksins átti Rebekka Rán skot úr þröngri stöðu en því miður fór boltinn ekki ofan í körfuna, lokastaðan naumur sigur KR, 76-78.

Stigahæstar í liði Snæfells voru þær Rebekka Rán sem var með 25 stig, Preslava Koleva var með 24 stig og 9 fráköst og Ylenia Bonett var ansi öflug með 16 stig, 7 fráköst, 12 stoðsendingar og 9 stolna bolta. Í liði KR var nýliðinn Violet Morrow afar spræk með 32 stig og 18 fráköst, Hulda Ósk Bergsteinsdóttir var með 17 stig og Perla Jóhannsdóttir með 11 stig og 9 fráköst.

Næsti leikur Snæfells verður miðvikudaginn 28. september á móti Breiðablik B í Smáranum í Kópavogi og hefst klukkan 21.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Mokveiði í dragnót

Dragnótarbáturinn Steinunn SH frá Ólafsvík lenti heldur betur í mokveiði rétt undan Ólafsvík á sunnudaginn. Köstuðu skipverjar dragnótinni aðeins þrisvar... Lesa meira