Listaverk Tinnu Royal á Breiðinni. Ljósm. vaks

Vegglistaverk vekja athygli á Akranesi

Eins og margir íbúar Akraness hafa eflaust tekið eftir, eða þá heyrt af, hafa tvö stór vegglistaverk verið í vinnslu á síðustu vikum og eru nú tilbúin. Annað þeirra er staðsett á suðurgafli Hafbjargarhússins á Breiðinni og er verk eftir listakonuna Tinnu Royal sem sýnir stórþorska sem synda í röðum hver í sína áttina. Það var unnið af ungu fólki úr vinnuskólanum undir stjórn Jóns Sverrissonar garðyrkjustjóra. Hitt verkið er eftir Arnór Kára, ungan listamann úr Reykjavík, og er staðsett á norðurgafli „Lesbókarinnar“ við Kirkjubraut og sýnir tvo tignarlega fugla. Ólafur Páll Gunnarsson var síðustu fjögur ár formaður menningar- og safnanefndar Akraness og því embætti fylgdi að fara fyrir afmælisnefnd Akraneskaupstaðar. Blaðamaður Skessuhorns heyrði í Óla Palla og spurði hann um tilurð þessa vegglistaverka.

Hvernig kom þetta til? „Akraneskaupstaður fagnar 80 ára afmæli í ár og menningar- og safnanefndin sem ég var formaður í var beðin um að taka að sér að koma með tillögur og hugmyndir. Þetta er ein af þeim hugmyndum sem komu upp á afmælisnefndarfundi í janúar og þá átti þetta reyndar að vera öðruvísi. Ég var að vona að einhver listamaður yrði til í að halda utan um þetta en svo atvikaðist það bara þannig að ég stökk í það mál því það fékkst enginn í þetta. Þetta er búið að vera mjög skemmtilegt ferli og gaman að sjá hvernig þetta kemur út. Nú eru tvö verk af sex tilbúin, þetta er mjög skemmtilegt og fólk virðist vera mjög ánægt með þetta. Það er tilgangurinn með þessu, að gera eitthvað skemmtilegt sem gleður fólk,“ segir Óli Palli.

Sjá má nánar viðtal við Óla Palla í nýjasta tölublaði Skessuhorns sem kom út í dag, ásamt myndum af listaverkunum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Mokveiði í dragnót

Dragnótarbáturinn Steinunn SH frá Ólafsvík lenti heldur betur í mokveiði rétt undan Ólafsvík á sunnudaginn. Köstuðu skipverjar dragnótinni aðeins þrisvar... Lesa meira