Kristian Lindberg skoraði sitt fyrsta mark fyrir ÍA í sumar gegn Val en það dugði ekki til. Ljósm. kfia

Skagamenn töpuðu gegn Val – Sjötti tapleikur liðsins í röð

Gömlu stórveldin ÍA og Valur mættust í Bestu deild karla í knattspyrnu í gærkvöldi og unnu Valsarar nauman sigur, 1-2. Valur fékk fyrsta færi leiksins þegar Aron Jóhannsson sendi boltann inn fyrir vörn Skagamanna þar sem Tryggvi Hrafn Haraldsson ætlaði að lauma boltanum í fjærhornið en Árni Marinó Einarsson markvörður ÍA varði ansi vel. Á 18. mínútu vildu Skagamenn fá vítaspyrnu þegar Eyþóri Aroni Wöhler var kippt niður í teignum en ekkert var dæmt. Skömmu fyrir leikhlé var Eyþór Aron að atast og hanga aftan í Hólmari Erni Eyjólfssyni sem var með boltann og slæmdi Hólmar Örn höndinni í bringuna á Eyþóri Aron sem lá eftir. Skagamenn heimtuðu rautt en Hólmar Örn slapp með gult spjald sem var líklega rétt miðað við leikræna tilburði Eyþórs Arons.

Valur byrjaði seinni hálfleikinn af krafti og komst yfir eftir sex mínútna leik. Tryggvi Hrafn sendi þá boltann á Aron sem var fyrir opnu marki og lagði boltann í netið. Nokkru síðar fengu Skagamenn vítaspyrnu eftir hornspyrnu sem lauk með því að Arnór Smárason braut á Hlyni Sævari Jónssyni sem var að reyna að koma boltanum yfir línuna. Kaj Leó Í Bartalstovu tók vítið en Frederik Schram gerði vel og varði út við stöng. Það var varla mínúta liðin eftir markið þegar Valsmenn bættu við öðru marki og var það Arnór Smárason sem smellti boltanum fyrir utan teig í stöngina og inn, staðan 0-2 fyrir Val og útlitið ekki gott fyrir ÍA. Steinar Þorsteinsson fékk síðan fínt færi en skaut rétt yfir og það var síðan fimm mínútum fyrir leikslok að Skagamenn minnkuðu muninn. Gísli Laxdal Unnarsson vippaði þá boltanum inn á teiginn þar sem Kristian Lindberg skallaði boltann í fjærhornið og spenna komin aftur í leikinn. Skagamenn sýndu smá lífsmark síðustu mínúturnar en tókst ekki að jafna metin og ekki hjálpaði til þegar Johannes Vall leikmaður ÍA fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt á lokamínútu leiksins. Niðurstaðan sjötta tap Skagamanna í röð og þeir sitja sem fastast á botninum með átta stig eftir 16 umferðir en fyrir ofan þá eru ÍBV með tólf stig, FH með ellefu stig og Leiknir R. með tíu stig.

Næsti leikur ÍA er gegn KA á Greifavellinum á Akureyri næsta sunnudag og hefst klukkan 16.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Mokveiði í dragnót

Dragnótarbáturinn Steinunn SH frá Ólafsvík lenti heldur betur í mokveiði rétt undan Ólafsvík á sunnudaginn. Köstuðu skipverjar dragnótinni aðeins þrisvar... Lesa meira