Sölvi Gylfason þjálfari Skallagríms og hans menn eru í erfiðum málum. Ljósm. úr safni/glh

Skallagrímur að missa af úrslitakeppni 4. deildar

Hvíti riddarinn og Skallagrímur mættust í A riðli 4. deildar karla í knattspyrnu á laugardaginn og fór leikurinn fram að Varmá í Mosfellsbæ. Fyrir viðureignina var Hvíti riddarinn með 31 stig í efsta sæti riðilsins og Skallagrímur með 27 stig í þriðja sætinu, sæti á eftir liði Árbæjar sem var með 28 stig. Tvö lið fara í úrslitakeppni 4. deildar og því var þetta í raun úrslitaleikur fyrir Skallagrím að eiga möguleika á sæti í úrslitakeppninni.

Heimamenn komust yfir í leiknum með marki Patreks Orra Guðjónssonar úr víti og skömmu síðar heimtuðu Skallagrímsmenn vítaspyrnu en ekkert var dæmt og staðan í hálfleik 1-0 fyrir Mosfellinga. Patrekur Orri var síðan aftur á ferðinni tuttugu mínútum fyrir leikslok og kom liði sínu í tveggja marka forystu áður en hann gulltryggði þrennuna með marki á lokamínútu leiksins, lokatölur 3-0 og úrslitin mikil vonbrigði fyrir gestina og sæti í úrslitakeppninni að fjarlægjast.

Þegar tvær umferðir eru eftir er Hvíti riddarinn í efsta sæti riðilsins með 34 stig og með öruggt sæti í úrslitakeppninni. Árbær er með 31 stig og Skallagrímur með 27 og þarf því Skallagrímur að vinna sína leiki gegn Ísbirninum og Herði Ísafirði til að eiga möguleika. Þeir þurfa síðan einnig að treysta á að Árbær nái aðeins einu stigi í leikjum á móti Hvíta riddaranum og Ísbirninum og því er staðan orðin heldur vonlítil fyrir Skallagrím.

Á næsta ári verður 4. deildin tíu liða deild eins og hinar fjórar fyrir ofan sem þýðir að Skallagrímur gæti leikið í 5. deild á næsta ári. Fimmtu deildinni verður skipt í tvo átta liða riðla næsta sumar og fara þá tvö efstu liðin úr hvorum riðli í úrslitaleiki um tvö sæti í 4. deild fyrir árið 2024.

Síðasti heimaleikur sumarsins hjá Skallagrími er næsta föstudag á móti Ísbirninum á Skallagrímsvelli og hefst klukkan 20.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Mokveiði í dragnót

Dragnótarbáturinn Steinunn SH frá Ólafsvík lenti heldur betur í mokveiði rétt undan Ólafsvík á sunnudaginn. Köstuðu skipverjar dragnótinni aðeins þrisvar... Lesa meira