Hafsteinn kampakátur eftir seinni holu í höggi í gær. Ljósm. af FB síðu Hafsteins.

Fór holu í höggi tvisvar í þessari viku

Kylfingurinn Hafsteinn Gunnarsson í Golfklúbbnum Leyni á Akranesi hefur upplifað ótrúlega viku á golfvellinum. Síðasta mánudag fór hann holu í höggi á 18. holu á Garðavelli þegar hann tók létta 8 á móti vindi, hátt boltaflug sem lenti um tvo metra frá holu og rúllaði svo bara í. Geggjað! eins og Hafsteinn lýsti þessu á facebook. Hafsteinn skellti sér síðan í golf í blíðviðrinu í gær á Garðavelli og viti menn, aftur fór hann holu í höggi! „Þetta er auðvitað ótrúlegt en ég fór aftur holu í höggi í dag! Núna var það á 8. holu á Garðavelli, 6 járn á móti örlitlum vindi. Þetta er ekki hægt,“ segir hann á FB síðu sinni.

Þegar Skessuhorn heyrði í Hadda, eins og hann er yfirleitt kallaður, var hann ennþá frekar hátt uppi og ekki alveg að trúa þessu: „Þetta er bara fáránlegt, maður var bara að hugsa í bæði skiptin: Er þetta pottþétt í? en þetta er stórkostleg tilfinning. Maður trúði þessu ekki alveg þarna í seinna skiptið.“ Haddi hefur ekki farið holu í höggi áður á golfferlinum en hefur verið nálægt því tvisvar sirka fimm sentímetra frá holu. Hvenær á svo að fara þriðju holuna í höggi? „Fyrsta sem ég ætla að gera er að kaupa mér lottómiða fyrir kvöldið og ætli maður taki ekki bara helgina í það að ná holu í höggi, það yrði eitthvað!“ segir hann og hlær.

Haddi er því orðinn tvöfaldur félagsmaður í Einherjaklúbbnum eftir vikuna en tveir félagsmenn í Leyni hafa fyrr í sumar komist í þennan eftirsótta félagsskap. Fyrst var það Sveinbjörn Brandsson sem sló draumahöggið á 3. braut um miðjan maí og síðan Lárus Hjaltested á 8. braut í byrjun júní. Það eru því miklar líkur hjá golfurum ef þeir fara í golf á Garðavelli að þeir fari holu í höggi, það hefur sýnt sig í sumar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Mokveiði í dragnót

Dragnótarbáturinn Steinunn SH frá Ólafsvík lenti heldur betur í mokveiði rétt undan Ólafsvík á sunnudaginn. Köstuðu skipverjar dragnótinni aðeins þrisvar... Lesa meira