Slakur leikur Skagamanna í Breiðholtinu

Skagamenn léku í gærkvöldi gegn Leikni og fór leikurinn fram í Breiðholtinu. Leikurinn var mikilvægur fyrr bæði lið í botnbaráttu Bestu deildar. Leiknismenn höfðu betur í leiknum og sigruðu 1:0. Leikurinn í heild sinni var ekki rismikill og úrslitin afleit fyrir Skagamenn.

Það var lítið um opin færi í fyrri hálfleiknum og leikurinn í nokkru jafnvægi. Leiknismenn náðu nokkrum góðum sóknum sem ekki nýttust. Besta færi Skagamanna kom á lokamínútu hálfleiksins. Þá átti Steinar Þorsteinsson fyrirgjöf á nærstöng en Eyþór Wohler var mættur en náði ekki að stýra boltanum í markið og því markalaust í hálfleik.

En Skagamenn urðu fyrir áfalli þegar þurfti að skipta báðum miðvörðunum útaf, þeim Oliver Stefánssyni og Aroni Bjarka Jósepssyni, og við það riðlaðist vissulega leikur liðsins og nýttu Leiknismenn sér það og náðu að skora eina mark leiksins á 65. mínútu. Var þar á ferðinni Mikkel Jakobsen með skoti úr miðjum vítateignum.

Skagamenn náðu sér ekki á strik eftir þetta og gekk mjög illa að skapa sér marktækifæri og Leiknismenn náðu því að sigla sigrinum í höfn. Undir lokin fengu þeir Kaj Leo í Bartalstovu og Masiec Makuszewski að líta rauðu spjöldin fyrir stimpingar. Þannig að bæði lið enduðu leikinn með tíu leikmenn.

Þetta var slök frammistaða hjá Skagaliðinu. En það er nóg eftir af mótinu ennþá til að rífa sig frá fallsvæðinu og liðið er enn í tíunda sæti deildarinnar, en Leiknir og ÍBV eru í fallsætunum.

Næsti leikur Skagamanna er gegn Víkingum á Víkingsvelli laugardaginn 9. júlí.

Líkar þetta

Fleiri fréttir