Sigur og tap hjá Víkingum

Víkingur Ólafsvík lék tvo leiki í síðustu viku í þriðju deildinni. Á miðvikudaginn gerður þeir góða ferð til Sandgerðis og sigruðu þar heimamenn í Reyni 4:3. Reynismenn fengu óskabyrjun þegar Anel Cranc varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 9. mínútu, en Andri Þór Sólbergsson náði að jafna metin fyrir Víkinga tíu mínútum síðar. Tveimur mínútum eftir jöfnunarmarkið náði Víkingur forystunni í leiknum með marki Brynjars Vilhjálmssonar. Á 30. mínútu jafnaði Hörður Sveinsson fyrir heimamenn og Sæþór Ívan Vilhjálmsson kom Reynismönnum yfir í annað sinn í leiknum þremur mínútum síðar. En markasúpan í fyrri hálfleiknum var ekki hætt því á 41. mínútu jafnaði Brynjar Vilhjálmsson fyrir Víking með sínu öðrum marki í leiknum og staðan 3:3 í hálfleik. Það var síðan Bjartur Bjarmi Barkarson sem skoraði sigurmark Víkinga á 64. mínútu leiksins og þar við sat. Góður sigur Víkinga.

Á laugardaginn fékk Víkingur KFA í heimsókn á Ólafsvíkurvöll, þar sem gestirnir báru sigur úr býtum með markatölunni 3:1. Það var Mykolas Krasnovskis sem kom gestunum á bragðið strax á 16. mínútu leiksins. Staðan 0:1 í hálfleik. Þegar aðeins þrjár mínútur voru liðnar af síðari hálfleik bættu KFA menn öðru marki við og var þar að verki Imanol Vergara Gonzalez. Þegar átta mínútur lifðu leiks kom Hilmar Freyr Bjartþórsson gestunum í 3:0, en Víkingar náðu að klóra í bakkann á lokamínútum leiksins með marki Luis Romero Jorge. Lokastaðan 1:3.

Víkingur er nú í níuunda sæti deildarinnar með átta stig og næsti leikur þeirra er gegn Haukum á Ásvöllum í Hafnarfirði föstudaginn 8 júlí nk. klukkan 19:15.

Líkar þetta

Fleiri fréttir