Reynismenn bíða enn eftir fyrsta sigrinum í fjórðu deildinni. Ljósm. tfk

Markaregn hjá Kríu og Reyni Hellissandi

Það er óhætt að segja að það hafi rignt mörkum á Vivaldi vellinum á Seltjarnarnesi á þriðjudagskvöldið þegar Kría og Reynir frá Hellissandi tókust á í A riðli 4. deildar karla í knattspyrnu. Fjörið byrjaði strax á fyrstu mínútu þegar Kría komst yfir í leiknum og korteri seinna var staðan orðin 3-0 fyrir Kríu. Ingvar Freyr Þorsteinsson minnkaði muninn fyrir Reyni tíu mínútum fyrir hálfleik en Kría svaraði með marki fimm mínútum síðar, staðan í hálfleik því 4-1 fyrir Kríu.

Ingvar Freyr var aftur á skotskónum fyrir Reyni í byrjun seinni hálfleiks og Kristófer Máni Atlason kom sér á blað hjá gestunum eftir tæplega klukkutíma leik og spenna komin í leikinn, staðan 4-3. Mínútu seinna juku heimamenn forystuna í tvö mörk en sjö mínútum síðar var Kristófer Máni aftur á ferðinni og munurinn á ný eitt mark. En þá setti Kría í fluggírinn og skoraði fjögur mörk á síðasta kafla leiksins á móti einu marki Ingvars Freys sem náði þrennu í leiknum, ótrúleg úrslit og lokatölur 9-5 fyrir Kríu.

Reynir hefur tapað öllum fimm leikjum sínum til þessa í riðlinum og er í neðsta sæti með markatöluna 10:39. Næsti leikur liðsins er gegn Herði næsta laugardag á Skeiðisvelli á Ísafirði og hefst klukkan 17.

Líkar þetta

Fleiri fréttir