Byrjunarlið Kára gegn Kormáki/Hvöt á laugardaginn. Ljósm. kári

Kári fékk tvö rauð spjöld fyrir norðan

Kormákur/Hvöt og Kári mættust í 3. deild karla í knattspyrnu síðasta laugardag og fór leikurinn fram á Sauðárkróksvelli. Lítið markvert gerðist í fyrri hálfleik fyrir utan fjögur gul spjöld sem fóru á loft hjá dómara leiksins og átti Kári þrjú þeirra. Á síðustu mínútu fyrri hálfleiks skoraði Hilmar Þór Kárason fyrsta mark leiksins fyrir Kormák/Hvöt og staðan því í hálfleik 1-0.

Eftir rúmlega klukkutíma leik fóru síðan hlutirnir að gerast. Nikulás Ísar Bjarkason leikmaður Kára fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt á 68. mínútu. Fimm mínútum síðar síðar nýttu heimamenn sér liðsmuninn þegar Ingibergur Kort Sigurðsson kom þeim í tveggja marka forystu. Eitthvað fór þetta í skapið á Káramönnum því skömmu síðar fékk Hafþór Pétursson einnig rautt spjald og Káramenn orðnir níu á vellinum. Hilmar Þór Kárason var aftur á ferðinni skömmu fyrir leikslok fyrir Kormák/Hvöt og lokastaðan öruggur sigur þeirra, 3-0.

Kári situr nú í sjöunda sæti deildarinnar með fjögur stig eftir þrjá leiki. Næsti leikur Kára er á móti toppliði Dalvíkur/Reynis á laugardaginn í Akraneshöllinni og hefjast leikar klukkan 16.

Líkar þetta

Fleiri fréttir