Bryan Battle var drjúgur í liði Skallagríms gegn Hrunamönnum. Hér í leik á móti Hamri fyrir áramót. Ljósm glh

Skallagrímur með sigur á Hrunamönnum

Skallagrímur gerði sér ferð í gærkvöldi á Flúðir í Hrunamannahreppi þar sem þeir mættu heimamönnum í 1. deild karla í körfuknattleik. Aðeins tveimur stigum munaði á liðunum fyrir leik en liðin voru í sjöunda og áttunda sæti deildarinnar, Skallagrímur með tíu stig og Hrunamenn með átta. Hrunamenn skoruðu fyrstu þrjú stig leiksins en Skallagrímsmenn tóku fljótlega yfirhöndina og voru komnir með átta stiga forystu eftir fimm mínútna leik, 11:19. Hrunamenn náðu þó að svara aðeins fyrir sig í seinni hluta fyrsta leikhluta og staðan 20:24. Þeir náðu svo fljótlega að jafna metin í öðrum leikhluta en undir lok hans tóku Skallarnir góðan kipp og náðu tíu stiga forystu fyrir leikhlé, 39:49.

Hrunamenn reyndu hvað þeir gátu að minnka muninn í þriðja leikhluta en Skallagrími hélt engin bönd og var kominn með sextán stiga forystu þegar liðin tóku smá pásu fyrir síðasta fjórðunginn, 49:65. Heimamenn urðu að játa sig sigraða í fjórða leikhluta, ekkert gekk hjá þeim að saxa á forskot gestanna og gestirnir, með bakvörðinn Bryan Battle í feiknaformi, létu sigurinn ekki ganga úr greipum sér, lokastaðan 73:87.

Stigahæstir hjá Skallagrími voru þeir Bryan Battle með 36 stig og 11 fráköst, Simun Kovac var með 20 stig og 17 fráköst og Davíð Guðmundsson með 15 stig. Hjá Hrunamönnum var Karlo Lebo með 26 stig, Clayton Ladine með 20 stig og 11 stoðsendingar og Kent Hanson með 15 stig.

Næsti leikur Skallagríms er mánudaginn 17. janúar gegn nágrönnum sínum af Skaganum og hefst leikurinn klukkan 19.15.

Líkar þetta

Fleiri fréttir