Rebekka Rán Karlsdóttir var öflug í liði Snæfells gegn Þór. Hér í leik fyrr í vetur á móti KR. Ljósm. sá

Snæfell vann öruggan sigur á Þór

Snæfell og Þór Akureyri mættust á laugardaginn í 1. deild kvenna í körfuknattleik og fór leikurinn fram í Stykkishólmi. Mikið jafnræði var með liðunum í fyrsta leikhluta, þau skiptust á að ná forystunni og staðan 20:18 fyrir Snæfell við lok hans. Baráttan hélt áfram í öðrum leikhluta en Snæfell var þó með undirtökin og náði níu stiga forystu fljótlega í leikhlutanum. Þær náðu að halda því forskoti að hálfleik þó að Þórsstúlkur reyndu hvað þær gátu til að minnka muninn en staðan í hálfleik 47:39 fyrir Snæfell.

Í þriðja leikhlutanum var allt á svipuðum nótum til að byrja með en þá var besti leikmaður Snæfells, Sianni Martin, rekin í sturtu eftir rúman fimm mínútna leik. Þór náði í kjölfarið að koma spennu í leikinn með því að minnka muninn niður í fimm stig. Snæfell kom síðan til baka eftir að hafa jafnað sig eftir brottreksturinn, sýndi mikla baráttu og munurinn kominn í tíu stig þegar liðin gerðu sig tilbúin fyrir fjórða og síðasta leikhluta, 63:53.

Í stuttu máli fór allt í baklás og skrúfuna hjá gestunum í honum því Snæfell vann lokakaflann 26:9. Fyrirliði Snæfells, Rebekka Rán Karlsdóttir, var þar fremst í flokki, átti frábæran leik og Snæfell sigldi sigrinum örugglega í höfn, lokastaðan 89:62 fyrir heimamenn.

Stigahæstar hjá Snæfelli voru þær Rebekka Rán með 22 stig, Sianni Martin var með 21 stig og Rósa Kristín Indriðadóttir með 9 stig. Hjá Þór var Heiða Hlín Björnsdóttir með 14 stig og þær Ionna McKensie, Hrefna Ottósdóttir og Marín Lind Ágústsdóttir voru allar með 11 stig hver.

Næsti leikur Snæfells er gegn KR þriðjudaginn 18. janúar í Stykkishólmi og hefst leikurinn klukkan 18.

Líkar þetta

Fleiri fréttir