Breki Þór Hermannsson eftir undirskrift samningsins. Ljósm. af vef KFÍA

Breki Þór gerir samning við ÍA

Grundfirðingurinn Breki Þór Hermannsson skrifaði á Þorláksmessu undir sinn fyrsta samning við Knattspyrnufélag ÍA og gildir hann út tímabilið 2024. Breki Þór, sem er fæddur árið 2003, lék 15 leiki með Knattspyrnufélagi Kára í 2. deildinni síðasta sumar og skoraði eitt mark. Þá lék hann einnig 18 leiki með sameiginlegu liði ÍA/Kára/Skallagríms í 2. flokki karla í sumar og tólf leiki árið 2020. Þá lék Breki Þór tvo leiki með Víkingi Ólafsvík í Inkasso-deildinni árið 2019 þegar hann var enn löglegur með 3. flokki.

Foreldrar Breka Þórs eru knattspyrnuhjónin Hermann Geir Þórsson og Freydís Bjarnadóttir frá Grundarfirði. Hermann Geir lék á sínum ferli með HSH, ÍA, Víkingi Ólafsvík, HK og Grundarfirði og Freydís með Stjörnunni, HSH, HK/Víkingi, Snæfellsnesi og Víkingi Ólafsvík.

Þá greindi ÍA frá því skömmu áður að Guðlaugur Baldursson hefði verið ráðinn aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla en hann tekur við af Fannari Berg Gunnólfssyni sem lét af störfum á dögunum. Guðlaugur hefur mikla reynslu sem þjálfari og hefur verið aðal- eða aðstoðarþjálfari í meistaraflokki hjá FH, ÍBV, ÍR, Keflavík og síðast Þrótti Reykjavík.

Líkar þetta

Fleiri fréttir