Davíð Guðmundsson var stigahæstur gegn Hetti. Ljósm. glh

Skallagrímur tapaði gegn Hetti

Skallagrímur tók á móti Hetti frá Egilsstöðum í 1. deild karla í körfuknattleik í gærkvöldi og fór leikurinn fram í Fjósinu í Borgarnesi. Skallagrímur var fyrir leikinn með tíu stig í sjöunda sæti deildarinnar en Hattarmenn í því þriðja með 18 stig. Gestirnir byrjuðu betur í leiknum og komust í 0:5 strax á fyrstu mínútu og voru komnir í 11:19 eftir rúmlega fimm mínútna leik. Skallagrímsmenn náðu að krafsa aðeins frá sér undir lok leikhlutans og staðan 23:27 fyrir Hött þegar leikmenn gerðu sig tilbúna fyrir annan leikhluta. Skallagrímur náði að hanga í gestunum fyrri hluta annars leikhluta en síðan skildu leiðir og staðan í hálfleik 36:53.

Í þriðja leikhluta var jafnt á með liðunum og munurinn því svipaður þegar liðin fengu sér vatnspásu fyrir síðasta leikhlutann, staðan 62:83 fyrir Hattarmenn. Þeir juku síðan forskotið enn meir, fátt var um svör hjá heimamönnum og öruggur sigur gestanna staðreynd, lokatölur 79:109.

Stigahæstir hjá Skallagrími voru þeir Davíð Guðmundsson með 21 stig, Bryan Battle með 13 stig og Simun Kovac með 11 stig. Hjá Hetti var Arturo Rodriguez með 28 stig, Adam Eiður Ásgeirsson með 22 stig og Timothy Guers með 18 stig og 12 stoðsendingar.

Næsti leikur Skallagríms er 10. janúar gegn Hrunamönnum á Flúðum og hefst leikurinn klukkan 19.15.

Líkar þetta

Fleiri fréttir