Skallagrímskonur töpuðu botnbaráttuslagnum

Skallagrímur heimsótti lið Breiðabliks í Kópavoginn í gærkvöldi í Subway deild kvenna í körfuknattleik. Fyrir leikinn voru liðin í tveimur neðstu sætum deildarinnar, Breiðablik í sjöunda sæti með einn sigurleik og Skallagrímur í neðsta sæti án sigurs. Breiðablik var sterkari í upphafi leiks og leiddi 7:2 eftir þriggja mínútna leik en Skallagrímur náði að koma til baka og var með forystu eftir fyrsta leikhluta, 19:23. Breiðablik hóf annan fjórðunginn með miklum látum, skoraði 14 stig gegn engu gestanna en Skallagrímur setti sín fyrstu stig eftir rúmar fjórar mínútur. Skallagrímur náði síðan 7:0 áhlaupi í kjölfarið og leikurinn í járnum en Breiðablik hitti betur utan af velli gegn svæðisvörn Skallagríms og staðan í leikhléi, 44:37, Breiðablikskonum í vil.

Breiðablikskonur komu grimmar til leiks í seinni hálfleik og komust tíu stigum yfir snemma í þriðja leikhlutanum. Skallagrímur náði að halda sér inni í leiknum með sjö stigum í röð og í hvert skipti sem Breiðablikskonur gerðu sig líklegar til að stinga af svaraði Skallagrímur því ávallt. Breiðablik átti þó síðasta áhlaupið í leikhlutanum og staðan 62:53 fyrir fjórða og síðasta leikhlutann. Heimakonur náðu að auka forskotið enn meira í byrjun síðasta fjórðungsins en Skallagrímskonur neituðu að gefast upp og minnkuðu muninn í sex stig þegar rúmlega þrjár mínútur voru til leiksloka. En lengra komst Skallagrímur ekki og lokastaðan 81:74 fyrir Breiðablik.

Stigahæstar hjá Skallagrími voru þær Maja Michalska og Breana Destiny Bay með 21 stig hvor og Leonie Edringer var með 18 stig. Hjá Breiðablik var Michaela Kelly með 20 stig, Anna Soffía Lárusdóttir með 18 stig og Iva Georgieva með 16 stig.

Næsti leikur Skallagríms er gegn Fjölni í Fjósinu í Borgarnesi á miðvikudaginn og hefst klukkan 18.15.

Líkar þetta

Fleiri fréttir