Snæfell tapaði gegn Tindastól fyrir norðan

Snæfellskonur léku gegn Tindastól í 1. deild kvenna í körfuknattleik á laugardaginn og urðu að sætta sig við tíu stiga tap, 87:77. Heimakonur byrjuðu af krafti og komust í 8:0. Snæfell reyndi hvað þær gátu til að missa ekki leikinn úr höndum sér og náðu að halda mismuninum í átta stigum eftir fyrsta leikhluta, 23:15. Um miðjan annan leikhlutann var Tindastóll kominn með 20 stiga forystu, héldu því til loka fyrri hálfleiks og útlitið alls ekki gott fyrir Snæfell í leikhléinu, hálfleiksstaðan 51:31.

Fram að miðjum hluta þriðja leikhlutans voru Snæfellskonur að elta og gekk illa að minnka muninn. Þær náðu síðan frábæru áhlaupi með Sianni Martin í fararbroddi þegar þær skoruðu 19 stig gegn aðeins fjórum stigum Stólanna síðustu fimm mínúturnar og allt í einu var forskot Tindastóls aðeins þrjú stig þegar liðin hvíldu sig fyrir lokaátökin, 66:63. Eftir hálfan fjórða og síðasta leikhluta var staðan orðin  70:74 fyrir Snæfelli og staðan orðin ansi vænleg fyrir gestina. En þá setti Tindastóll í fluggírinn, settu 13 stig í röð á meðan Snæfell skoraði aðeins þrjú stig seinni hluta leikhlutans. Lokastaðan 87:77 Tindastólskonum í vil og liðin eru því jöfn í fimmta og sjötta sæti deildarinnar með fjögur stig eftir fjóra leiki.

Langstigahæst í liði Snæfells var Sianni Martin með 51 stig, Rebekka Rán Karlsdóttir var með 10 stig og Preslava Koleva með 9 stig. Í liði Tindastóls var Madison Sutton stigahæst með 33 stig, Eva Rún Dagsdóttir var með 20 stig og Ksenja Hribljan með 12 stig.

Næsti leikur Snæfells er gegn Vestra laugardaginn 13. nóvember á Ísafirði og hefst klukkan 18.

Líkar þetta

Fleiri fréttir