Arnar Smári Bjarnason var stigahæstur í liði Skallagríms með 15 stig. Ljósm. glh

Skallagrímsmenn úr leik í Vís bikarkeppni karla

Skallagrímur er úr leik í Vís bikarkeppni karla í körfuknattleik en liðið tók á móti Tindastóli í 32-liða úrslitum Vís bikarsins í Borgarnesi í gærkvöldi. Tindastóll sem spilar í úrvalsdeild karla sýndi mikla yfirburði á parketinu gegn fyrstu deildar liði Skallagríms og reyndust gestirnir úr Skagafirði heimamönnum einfaldlega of stór biti þegar upp var staðið. Lokatölur 112:61 Skagfirðingum í vil.

Stólarnir lögðu línurnar strax á fyrstu mínútu og pressuðu fast á Skallagrímsmenn sem gátu lítið athafnað sig. Gestirnir leiddu með níu stigum eftir tíu mínútna leik og áttu bara eftir að bæta í forskot sitt. Hálfleikstölur 33:49 fyrir gestunum.

Forskot Stólanna varð aldrei í hættu og áttu Skallagrímsmenn lítil sem engin svör til að snúa leiknum sér í hag. Gestirnir sigldu því heldur þægilegum sigri í höfn og farseðill í 16-liða úrslit Vís bikarkeppni karla staðfest.

Atkvæðamestur í liði Tindastóls var Taiwo Hassan Badmus með 22 stig og 5 stolna bolta. Næstur á eftir var Pétur Rúnar Birgisson sem skilaði inn 18 stigum og tók 11 fráköst fyrir sitt lið. Í liði Skallagríms var Arnar Smári Bjarnason stigahæstur með 15 stig. Davíð Guðmundsson var næststiga hæstur með 12 stig. Hins vegar var liðið með 35 tapaða bolta sem Stólarnir náðu að nýta sér í hag.

Umferðir í 32-liða úrslitum Vís bikarkeppni karla klárast í dag, 18. október og þá kemur í ljós hvaða lið komast áfram í 16-liða úrslitin. 16-liða úrslit Vís bikarkeppni karla fer svo fram dagana 30. október til 1. nóvember.

Líkar þetta

Fleiri fréttir