Atli Aðalsteinsson stjórnar liði sínu frá hliðarlínunni í leik gegn Fjölni síðastliðinn föstudag. Ljósm. glh.

Stutt undirbúningstímabil hjá Skallagrímsmönnum

Tímabilið er farið af stað hjá Skallagrímsmönnum í fyrstu deild körfuknattleiks karla. Þeir hafa nú þegar spilað þrjá leiki, fyrst gegn Álftanesi, svo gegn Fjölni og núna síðast við Hamar en liðið hefur þurft að sætta sig við tap í öllum þessum viðureignum. Atli Aðalsteinsson stýrir liðinu og er bjartsýnn á tímabilið fram undan, þrátt fyrir stuttan undirbúning og óhagstæð úrslit í fyrstu leikjum. „Það er smá þungi yfir okkur til að byrja með, en svo þegar leikirnir byrja og menn finna að við erum ekki á þeim stað sem við viljum vera á, þá erum við nú bara þannig gerðir að við berjum okkur saman og tökum okkur tak. Andinn er góður og vonandi fylgir gengið eftir því,“ segir Atli Aðalsteinsson um leikmannahópinn sinn.

Þungir af stað

Undirbúningstímabilið var ansi stutt hjá Atla og félögum. Það litast svolítið af tímabilinu í fyrra sem var langt og náði alveg fram í júnímánuð en hefðin er að körfuboltatímabilin klárist á vorin, ekki sumrin. „Það verður að viðurkennast að undirbúningstímabilið var ansi þungt af stað hjá okkur og áttum við svolítið erfitt með að keyra hlutina í gang,“ segir Atli um undirbúninginn. „Ég hélt líka að ég hefði valið nokkuð vel í útlendingamálum en svo virtist ekki vera þegar allt kom til alls. Þannig af mörgum samverkandi þáttum þá verð ég að segja að undirbúningstímabilið gekk erfiðlega,“ bætir hann hreinskilinn við.

„Verðum fastari í skorðum“

Hópurinn hjá Atla er að taka á sig lokamynd, ekki seinna vænna nú þegar boltinn fer að rúlla og leikirnir koma á færibandi næstu vikurnar, en næsti leikur liðsins er í Hveragerði gegn Hamar á föstudaginn kemur. Tveir nýir leikmenn eru væntanlegir í liðið til að þétta hópinn enn fremur. „Það voru meiri hræringar í hópnum eftir síðasta tímabil en maður hefði viljað en það er eins og það er. Við erum í erfiðari stöðu hvað það varðar en erum samt alltaf, þrátt fyrir það, brattir,“ segir Atli jákvæður. „Við verðum aðeins fastari í skorðum en oft áður. Erum með ungan leikstjórnanda sem þarf að leggja áherslu á að stjórna hraða leiksins og halda öllum leikmönnum inni í leiknum. Svo inn á milli þá förum við að sjálfsögðu á flug og hlaupum svolítið líka,“ bætir hann við um leikstílinn sem fólk má búast við af liðinu í vetur.

„Við erum með marga flotta leikmenn en okkur hefur kannski vantað leiðtoga í hópinn sem er mikilvægt í öllum hópíþróttum. Nú er það í höndum þeirra sem eru í liðinu að stíga upp og taka á sig ábyrgð til að leiða liðið.“

Löng ferðalög

Þegar Atli tók við liðinu fyrir rétt rúmum tveimur árum síðan þá setti hann sér það markmið að byggja liðið upp á heimamönnum og búa þannig til góðan kjarna. „Nú þurfum við að halda í þá leikmenn sem við eigum eftir og hlúa að þeim eins og við best getum. Við setjum svo auðvitað þá kröfu á sjálfa okkur að með hverri vikunni bætum við okkur sem lið í körfubolta og verðum vonandi orðnir þéttir og flottir þegar líða tekur á veturinn,“ segir Atli bjartsýnn. „Helstu áskoranirnar eins og flesta vetra í fyrstu deildinni, eru öll þessi ferðalög að mínu mati. Það er gríðarlega krefjandi að eiga leik að kvöldi til á annað hvort Höfn eða þá Egilsstöðum. Þá erum við að keyra fram og til baka, við erum að tala um sólarhringsathöfn fyrir 40 mínútna leik.“

Vantar sjálfboða

Mikil vöntun hefur verið á sjálfboðaliðum fyrir Skallagrím en félag sem þetta byggist nær eingöngu á sjálfboðaliðavinnu svo hjólin haldist gangandi. „Ég biðla til allra þeirra sem vettlingi geta valdið að slást í lið með okkur í ákveðinni enduruppsetningu á körfuboltanum í Borgarnesi. Við þurfum öll að leggjast á eitt og það er að búa börnunum okkar sem bestan kost til að vaxa og dafna sem íþróttafólk. Til þess þarf margar hendur og það er ekkert leyndarmál að þær vantar eins og stendur. Við vitum öll hvað gott íþróttastarf hefur gríðarlega góð áhrif á samfélagið og það verður að hjálpast að við að standa við bakið á öllum þeim sem eru að stunda íþróttir hvernig sem við gerum það. Enginn er ónothæfur í stjórnum eða ráðum svo endilega sláið til og stöndum saman í gegnum erfiða tíma. Áfram Skallagrímur!“

Líkar þetta

Fleiri fréttir