Hugo Salgado, þjálfari ÍA. Ljósm. jho.

„Mikil reynsla fyrir okkar ungu leikmenn“

Körfuknattleikslið ÍA hefur hafið leik í 1. deild karla þennan veturinn og leikið þrjá leiki í deildinni og tapað þeim öllum. Skessuhorn heyrði í Jóni Þór Þórðarsyni, formanni körfuknattleiksdeildarinnar, eftir fyrsta leikinn og spurði hann fyrst hvernig undirbúningstímabilið hefði gengið fyrir sig. Jón Þór segir að það hafi verið stutt og snaggaralegt og hann ráðleggi engum að fara upp um deild með 18 daga fyrirvara.

Nú fenguð þið óvænt sæti í 1. deildinni. Voruð þið alveg óhræddir að taka það og eruð þið með nógu sterkan leikmannahóp í þessa deild? „Boð um þátttöku í 1. deild kom óvænt og þurftum við að hafa hraðar hendur. Þetta var ekkert sjálfgefið, bæði er kostnaðurinn meiri og deildin mun sterkari. Það voru samt allir klárir í bátana að kýla á þetta og láta slag standa; þjálfarinn, leikmennirnir og stjórn félagsins. Við gerum okkur samt alveg grein fyrir að þetta verður mjög erfitt og krefjandi. Við töldum þetta mikilvægt skref fyrir okkur í okkar framtíðar uppbyggingu. Við ákváðum því að stökkva á þetta og svo verður bara að koma í ljós hvernig fer.“

Varðandi hvernig hópurinn sé byggður upp segir Jón Þór að þeir séu með ákveðinn kjarna af ungum sem og eldri heimamönnum. Þá hafi einnig komið sprækir strákar að sunnan sem höfðu samband af eigin frumkvæði og vildu fá að spreyta sig með þeim. „Síðan hafa bæst við tveir erlendir leikmenn, þeir Chris Clover frá Bandaríkjunum og Nestor Saa frá Bretlandi. Við erum því komnir með góðan hóp sem er tilbúinn til að gefa allt í leikinn og hungraðir í að sanna sig á þessum vettvangi.“

Nú eruð þið komnir með nýjan þjálfara. Hvernig kom það til, hvaðan kemur hann og er hann með mikla reynslu af þjálfun? „Hugo Salgado heitir þjálfarinn okkar og kemur frá Portúgal þar sem hann hefur mikla reynslu sem þjálfari í efstu deild þar í landi. Við fengum ábendingu um hann og fannst það sem hann hafði fram að færa passa vel við okkur á þessum tímapunkti. Í Portúgal hefur hann verið að ná góðum árangri með félög sem hafa úr minna að moða en stóru liðin. Það er nákvæmlega sú staða sem við erum í, við höfum trú á honum og treystum honum í verkefnið. Einnig er konan hans Nikola Nedoroscikova að hjálpa okkur að byggja upp kvennastarf ásamt því sem hún er að spila með kvennaliði Skallagríms í Borgarnesi.“

Nú töpuðuð þið stórt í fyrsta leik gegn Haukum. Hvernig hefur tekist að hrista skjálftann úr leikmönnum eftir þann leik? „Í fyrsta leik réðumst við á garðinn þar sem hann er hæstur, Haukar eru í algjörum sérflokki í þessari deild. Þó úrslitin hafi verið skellur þá lærðum við margt og vorum grátlega nálægt því að vinna Hrunamenn í næsta leik á eftir. Við erum bara að taka þetta leik fyrir leik og reyna að bæta okkur jafnt og þétt. Vonandi kemur fyrsti sigurleikurinn fyrr en seinna.“

Jón Þór segir að endingu að markmið liðsins séu einfaldlega að halda sætinu í deildinni og segir hann að þeir séu bjartsýnir með það. „Þetta er langt mót þar sem spiluð er þreföld umferð, margir leikir og það á margt eftir að gerast. Hvernig sem fer þá er þetta mikil reynsla fyrir okkar félag og okkar ungu leikmenn. Við höfum trú að það eigi eftir að hjálpa okkur til framtíðar.“ Eitthvað að lokum? „Við hjá Körfuknattleiksfélagi ÍA erum bara bjartsýn fyrir vetrinum og fer okkar starf vel af stað. Yngri flokka starfið okkar er í vexti og mjög ánægjulegt að vera loks komin með vísir að kvennastarfi sem við þurfum að hlúa vel að. Þannig að það er bara áfram ÍA! – Alltaf!“

Líkar þetta

Fleiri fréttir