Snæfellsstúlkur sigruðu Stjörnuna

Snæfell tók á móti Stjörnunni í 1. deild kvenna í körfuknattleik í Stykkishólmi í gærkvöldi. Heimastúlkur byrjuðu af miklum krafti og voru komnar í 9:1 eftir rúmlega þriggja mínútna leik. Stjörnustúlkur gáfust þó ekki upp við þetta áhlaup, náðu að halda í við Snæfell og munurinn aðeins þrjú stig eftir fyrsta leikhluta, 19:16.  Í öðrum leikhluta voru Snæfellsstúlkur hreinlega á eldi í byrjun, skoruðu fyrstu 18 stigin og gerðu nánast út um leikinn. Snæfell hélt taktinum út leikhlutann og staðan 52:28 þegar leikmenn gengu til búningsklefa.

Í þriðja leikhluta skoruðu Stjörnustúlkur fyrstu tíu stigin og hleyptu smá spennu í leikinn. Lengra komust þær þó ekki í bili því Snæfell bætti aftur í og var með 19 stiga forystu þegar flautan gall, 71:52. Í síðasta leikhlutanum hélst munurinn í kringum 20 stigin mestan hlutann, Stjörnustúlkur tóku smá áhlaup undir lokin og minnkuðu forskotið í 13 stig. Snæfellsstúlkur skoruðu síðan síðustu sjö stig leiksins og öruggur sigur heimaliðsins í Hólminum, 89:71.

Hjá Snæfelli var Sianni Martin allt í öllu með nánast helming af stigum liðsins eða 44 stig, Gunnhildur Gunnarsdóttir var með 16 stig, 10 fráköst og 5 stoðsendingar og Rebekka Rán Karlsdóttir var með 10 stig. Stigahæstar hjá Stjörnunni voru þær Myia Starks með 28 stig og 11 fráköst, Diljá Ögn Lárusdóttir var með 12 stig og Elva Lára Sverisdóttir með 11 stig.

Næsti leikur Snæfells í deildinni er gegn Tindastóli fyrir norðan laugardaginn 23. október og hefst klukkan 18.

Líkar þetta

Fleiri fréttir