Baldur Þorleifsson, þjálfari Snæfells.

„Munum að sjálfsögðu leggja okkur fram“

Miklar breytingar hafa orðið á kvennaliði Snæfells úr Stykkishólmi í körfuknattleik fyrir þetta tímabil. Gamli leikmannakjarninn er nánast hættur og ýmis óvissa hefur verið varðandi það hvort Snæfell yrði einfaldlega með í vetur. Snæfell ákvað eftir síðasta tímabil að færa liðið niður í 1. deildina, setja af stað þriggja ára áætlun og hefja uppbyggingarstarf sem miðar að því að koma upp samkeppnishæfu liði í efstu deild að nýju. Leikmenn sem höfðu áhuga á að spila áfram í efstu deild leituðu á önnur mið og má þar meðal annars nefna þær Önnu Soffíu Lárusdóttur sem fór í Breiðablik og Tinnu Guðrúnu Alexandersdóttur sem fór í Hauka. Snæfell hóf leik í 1. deildinni á dögunum og hefur leikið þrjá leiki til þessa. Fyrst unnu þær KR fyrir sunnan naumlega 73:74, töpuðu svo fyrir Þór Akureyri fyrir norðan 79-67, en unnu í gær Stjörnuna 89-71.

Blaðamaður Skessuhorns heyrði hljóðið í Baldri Þorleifssyni, þjálfara Snæfells, eftir tvo fyrstu leikina og spurði hann fyrst hvernig undirbúningurinn fyrir mót hefði gengið og segir Baldur að þetta hafi farið mjög rólega af stað og þeir útlendingar sem hafði verið ákveðið að kæmu til liðsins hefðu komið með seinni skipunum:  „Hópurinn hefur ekki verið lengi saman en liðið samanstendur af þremur útlendingum og nokkrum upprennandi heimastúlkum. Liðið þarf lengri tíma til að ná betur saman en árangurinn til þessa er vel viðunandi.“

En hvernig líst Baldri á deildina miðað við það sem hann hefur séð hingað til og hvar sér hann Snæfell í töflunni? „Styrkleiki deildarinnar kemur mér nokkuð á óvart og það er greinilega mikill metnaður í gangi í mörgum liðum. Þau lið í deildinni sem virðast sterkust í augnablikinu sýnist mér vera ÍR, KR og Þór Akureyri. Snæfell er aftur á móti að hefja sitt uppbyggingarstarf en við munum að sjálfsögðu leggja okkur fram um að ná sem bestum árangri. Ég held að það styttist í að hægt sé að breyta úrvalsdeild kvenna í tíu liða deild sem er að mínu mati nauðsynlegt.“

Baldur segir að lokum að stærsti áfanginn hafi náðst nú nýverið á vel heppnuðum fundi körfuknattleiksdeildar Snæfells þar sem tókst að manna nýja stjórn og loks komið það bakland sem þarf til þess að byggja upp að nýju. „Við viljum þakka öllum þeim sem tóku þá ákvörðun að koma og starfa með okkur í stjórn og nefndum og ekki síður þeim stóra hópi sem hefur tekið okkur vel í allskonar fjáraflanir sem hafa verið í gangi. Snæfell er og verður félagið okkar.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir