Skallagrímskonan Inga Rósa Jónsdóttir stígur hér út í veg fyrir Hallveigu Jónsdóttur úr Val.

Stigalausar eftir tvær umferðir

Meistaraflokkur kvenna í Skallagrími þurfti að sætta sig við 70:92 tap gegn Valsstúlkum frá Reykjavík þegar liðin mættust í annarri umferð Subway deildar kvenna í körfuknattleik í Borgarnesi í gærkvöldi. Skallagrímsstúlkur spiluðu án hinnar amerísku Shakeya Leary, en unnið er hörðum höndum í herbúðum Skallagríms við að fá leikheimild fyrir miðherjann. Að sama skapi spiluðu Valsstúlkur án landsliðskonunnar Hildar Bjargar Kjartansdóttur, sem enn glímir við höfuðmeiðsli frá síðasta tímabili.

Valsstúlkur tóku strax völdin í upphafi leiks og stýrðu honum nánast frá fyrstu mínútu. Skallagrímur hélt sér innan seilingar í einhvern tíma en Valur stakk svo af í öðrum leikhluta þegar liðið skoraði 31 stig í leikhlutanum á móti 14 stigum Borgnesinga. Hálfleikstölur því 32:54 Valsstúlkum í vil.

Hlíðarendastúlkur héldu uppteknum hætti í síðari hálfleik og áttu Skallagrímsstúlkur fá svör við sóknarleik þeirra rauðklæddu að sunnan sem skoruðu að vild. Valur sigldi því nokkuð öruggum sigri í höfn þegar 40 mínútur voru liðnar. Lokatölur 92:70 Valsstúlkum í vil.

Í liði gestanna var leikstjórnandinn Ameryst Alston langstigahæst í sínu liði, með 36 stig. Alston tók að auki 11 fráköst og gaf sex stoðsendingar. Þar næst var Dagbjört Dögg Karlsdóttir með 19 stig.

Í liði Borgnesinga var framherjinn Mammusu Secka stigahæst með 19 stig en að auki reif hún niður 11 fráköst. Þar á eftir var Embla Kristínardóttir með 12 stig. Maja Michalska, Nikola Nederosíková og Inga Rósa Jónsdóttir skiluðu inn níu stigum hver.

Eftir tvær umferðir í Subway deild kvenna eru Skallagrímskonur stigalausar en þær spiluðu fyrst gegn Keflavík á miðvikudaginn var og þurftu að sætta sig við tap gegn suðurnesjaliðinu. Aftur á móti hefur Valur unnið báðar sínar viðureignir, fyrst gegn Grindavík og núna gegn Skallagrími. Næsta umferð byrjar á miðvikudaginn en næsti leikur Skallagríms er gegn Haukum syðra á sunnudaginn og hefst klukkan 18.

Líkar þetta

Fleiri fréttir