Stórtap í fyrsta leik Skallagríms í körfunni

Skallagrímur lék sinn fyrsta leik á tímabilinu í 1. deild karla í körfuknattleik á mánudagskvöldið þegar liðið mætti Álftanesi syðra. Mikið jafnræði var með liðunum í byrjun leiks en eftir fimm mínútna leik tóku heimamenn við sér og komust í 17:10.  Sá munur hélst nokkurn veginn fram að lokum fyrsta leikhluta en þó náðu Skallagrímsmenn að minnka muninn í 24:18. Annar leikhluti var á svipuðum nótum framan af en svo bætti Álftanes við forystuna jafnt og þétt og staðan í leikhléi var 50:34.

Lítið gekk hjá Skallagrími að þétta raðirnar í þriðja leikhluta og Álftnesingar juku muninn jafnt og þétt og komust í 66:44 um miðjan leikhlutann og voru komnir með 28 stiga forskot í lok leikhlutans, 77:49. Í síðasta leikhlutanum bættu heimamenn enn betur í og unnu verðskuldaðan stórsigur, 101:67.

Stigahæstir í liði Álftnesinga voru þeir Friðrik Anton Jónsson með 22 stig og Isiah Coddon með 19 stig.  Hjá Skallagrími voru þeir Elijah Bailey með 22 stig, Almar Örn Björnsson með 16 stig og Ólafur Þorri Sigurjónsson með 9 stig.

Næsti leikur Skallagríms í deildinni er gegn Fjölni á föstudagskvöld í Fjósinu í Borgarnesi og hefst klukkan 19:15.

Líkar þetta

Fleiri fréttir