Ljósm. úr safni/ jho.

Skagamenn töpuðu stórt gegn Haukum á heimavelli

ÍA lék sinn fyrsta leik í vetur í 1. deild karla í körfubolta þegar þeir léku gegn liði Hauka í íþróttahúsinu við Vesturgötu í gærkvöldi. Skagamenn fengu óvænt sæti í fyrstu deildinni þegar þeir þáðu boð KKÍ að taka sæti Reynis Sandgerði sem lét það frá sér um miðjan september. Haukar hins vegar féllu úr úrvalsdeildinni á síðasta tímabili og stefna á að komast aftur upp á meðal þeirra bestu. Það sást fljótlega í leiknum í gærkvöldi því Haukar voru komnir í 7:22 eftir sex mínútna leik og staðan var orðin 12:33 eftir fyrsta leikhluta. Haukar héldu áfram að herja á heimamenn í öðrum leikhluta og hreinlega völtuðu yfir þá og staðan í hálfleik hálf ótrúleg, 21:67.

Ekki skánaði leikur Skagamanna mikið í þriðja leikhluta og Haukar voru ekki langt frá hundraðinu þegar honum lauk en staðan var þá 33:93. Skagamenn skoruðu ekki stig fyrstu fjórar mínúturnar í fjórða leikhluta og Haukar héldu áfram að safna stigum. Líklega voru Skagamenn frelsinu fegnir þegar lokaflautan gall og lokatölur leiksins 44:120 fyrir Haukum.

Stigahæstir hjá Skagamönnum voru þeir Nestor Elijah Saa með 17 stig og 8 fráköst, Davíð Alexander Magnússon var með 9 stig og aðrir minna. Hjá Haukum var Shemar Bute með 26 stig og 11 fráköst, Orri Gunnarsson með 19 stig og Jose Aldana var með 18 stig, 7 stoðsendingar og 7 stolna bolta.

Næsti leikur Skagamanna í deildinni er gegn Hrunamönnum og fer hann fram á Flúðum næsta föstudagskvöld og hefst klukkan 19:15.

Líkar þetta

Fleiri fréttir