Lið ÍA og Breiðabliks/Augnabliks eftir leikinn á föstudagskvöldið. Ljósm. Guðmundur S. Sveinsson

ÍA tapaði úrslitaleiknum í bikarnum í 2. flokki kvenna

Það var nánast fullt hús í Akraneshöllinni á föstudagskvöldið þegar ÍA og Breiðablik/Augnablik léku til úrslita í bikarkeppni 2. flokks kvenna. Skagastúlkur komust yfir á 17. mínútu þegar brotið var á fyrirliðanum Lilju Björgu Ólafsdóttur sem steig síðan sjálf á vítapunktinn og skoraði af öryggi í vinstra hornið. Forskotið hélt þó ekki mjög lengi því fjórum mínútum síðar höfðu gestirnir jafnað metin. Júlía Katrín Baldvinsdóttir fékk þá boltann fyrir utan vítateig og átti frábært skot sem hafnaði efst í hægra horninu sem markvörður ÍA réð ekki við. Eftir þetta sóttu liðin á víxl, mikil barátta var í leiknum en lítið um marktækifæri og staðan jöfn í hálfleik.

Breiðablik/Augnablik komst yfir eftir átta mínútna leik í þeim seinni þegar leikmaður ÍA braut af sér frekar klaufalega innan vítateigs og Hildur Lilja Ágústsdóttir skoraði úr vítinu með föstu skoti upp í þaknetið. Eftir þetta reyndu Skagastúlkur að jafna metin en komust lítt áleiðis gegn sterkri vörn Breiðabliks/Augnabliks og besta færi þeirra var líklegast langskot skömmu fyrir leikslok sem stefndi í markið en markvörður gestanna varði vel. Það var síðan Díana Ásta Guðmundsdóttir sem gulltryggði sigurinn þegar hún fékk stungusendingu inn fyrir vörn ÍA og lagði boltann snyrtilega undir markmann ÍA og í netið. Skagastúlkur neituðu þó að gefast upp og þegar sex mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma náði Lilja Björk Unnarsdóttir að minnka muninn. ÍA fékk þá aukaspyrnu rétt utan teigs sem Lilja Björk tók með vinstri fæti og smellti boltanum í samskeytin. Glæsilegt mark en því miður dugði það skammt því nokkrum sekúndum síðar flautaði dómari leiksins leikinn af og Breiðablik/Augnablik er því Bikarmeistari í 2. flokki kvenna árið 2021. Þá eru þær einnig Íslandsmeistarar í 2. flokki í A-deild og unnu því tvöfalt í ár.

ÍA endaði í þriðja sæti í A-deild í sumar með 24 stig, vann átta leiki og tapaði fjórum. Markahæstar voru þær Erna Björt Elíasdóttir sem skoraði tíu mörk, Lilja Björk Unnarsdóttir var með níu mörk og þær María Björk Ómarsdóttir og Ylfa Laxdal með sex mörk hvor.

Líkar þetta

Fleiri fréttir