Skagamenn björguðu sér frá falli á ævintýralegan hátt

Ótrúlegar sjö mínútur breyttu martröð yfir í dísætan draum

Það er lýðnum ljóst. Skagamenn verða á meðal þeirra bestu á næsta ári í Pepsi Max deildinni eftir ótrúlegan sigur á Keflvíkingum á HS Orkuvellinum syðra í dag. Frábær endir á erfiðu tímabili Skagamanna því nánast enginn nema kannski þjálfari og leikmenn ÍA höfðu trú á því fyrir skömmu að það væri einhver möguleiki fyrir liðið að halda sér uppi í Pepsi Max deildinni í ár. Fyrir þremur umferðum höfðu Skagamenn aðeins unnið alls þrjá leiki í allt sumar í deildinni en þeir höfðu óbilandi trú á verkefninu og unnu þrjá síðustu leiki liðsins í deildinni og enduðu tímabilið með glæsibrag.

Það var frekar hátt spennustigið í byrjun leiks suður með sjó í dag enda ansi mikið undir. Veður var hið ágætasta, sól á stangli en smá rok í Sunny Kef. Skagamenn spiluðu á móti vindi í fyrri hálfleik og fengu frekar ódýrt víti á 15. mínútu þegar dómari leiksins taldi að brotið hefði verið á Ísak Snæ Þorvaldssyni. Steinar Þorsteinsson steig á punktinn en skaut hátt yfir markið. Lítið fleira markvert gerðist þar til á lokamínútu fyrri hálfleiks þegar leikmaður Keflavíkur, Ástbjörn Þórðarson átti hörkuskot fyrir utan teig að marki sem fór af varnarmanni ÍA og í samskeytin fjær. Heimamenn því einu marki yfir í hálfleik og staða Skagamanna alls ekki góð.

Hún versnaði svo enn frekar á 63. mínútu þegar Óttar Bjarni Guðmundsson skoraði sjálfsmark og Skagamenn á lóðréttri leið niður í Lengjudeildina. En svo gerðist eitthvað ótrúlegt sem enginn bjóst við að myndi gerast og hvað þá heldur á aðeins sjö mínútum. Fyrst minnkaði Alex Davey muninn í 1-2 á 67. mínútu eftir að hafa átt hörkuskot utan vítateigs, síðan sendi Alex háa sendingu fjórum mínútum síðar í átt að marki þar sem Guðmundur Tyrfingsson sneiddi boltann yfir línuna og til að kóróna þetta allt saman potaði Sindri Snær Magnússon tuðrunni inn í markið á 74. mínútu eftir mikið klafs í teignum og kom Skagamönnum yfir í leiknum. Eftir þetta höfðu Skagamenn alla stjórn á leiknum með vindinn í bakið en þó er líklegt að margir Skagamenn hafi fengið hland fyrir hjartað skömmu síðar þegar Árni Marinó Einarsson, markvörður Skagamanna, gaf næstum því mark þegar hann, í staðinn fyrir að grípa boltann, ákvað að taka boltann með fætinum til þess eins að tefja tímann en missti boltann næstum undir sig og inn í markið. En Skagamenn héldu þetta út og fögnuðu geysilega í leikslok með fjölmörgum Skagamönnum í stúkunni sem fjölmenntu á leikinn og höfðu hátt og létu vel í sér heyra allan leikinn.

Skagamenn enduðu í níunda sæti deildarinnar með 21 stig, jafnmörg og Keflavík en með betri markatölu. HK og Fylkir féllu í Lengjudeildina og Víkingur Reykjavík með Skagamanninn Arnar Gunnlaugsson í brúnni fagnaði sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli í 30 ár þegar Víkingur lagði lið Leiknis að velli 3-0. Því er ærin ástæða fyrir Skagamenn að fagna í dag og Skessuhorn óskar öllum Skagamönnum, gulum og glöðum um allt land, hjartanlega til hamingju með árangurinn og góða skemmtun í kvöld!

Líkar þetta

Fleiri fréttir