Guðjón Þórðarson mun stýra liðinu áfram. Hann segir verkefni vetrarins að púsla saman liði, stækka heimahópinn en bæta síðan við útlendingum eins og þurfa þykir. Ljósm. af.

Víkingur kvaddi Lengjudeildina með sigri

Eftir að hafa tapað fimm leikjum í röð í Lengjudeildinni náði Víkingur Ólafsvík loks sigri gegn Grindavík á laugardaginn. Aðstæður voru ekki upp á það besta í Grindavík, grenjandi rigning, mikill vindur og völlurinn nánast á floti. Leikurinn byrjaði fjörlega því á fimmtu mínútu skoraði Harley Bryn Willard fyrir Víking en aðeins mínútu síðar jafnaði Josip Zeba fyrir heimamenn. Besti maður vallarins, Bjartur Bjarmi Barkarson, kom Víkingi aftur yfir eftir tæpar 30 mínútur og Kareem Isiaka bætti þriðja markinu við rétt fyrir leikhlé og staðan 1-3 í hálfleik fyrir Víking.

Grindavík minnkaði muninn strax í byrjun seinni hálfleiks með marki frá Gabriel Dan Robinson en það var síðan Kareem Isiaka sem gulltryggði annan sigur Víkings í sumar með sínu öðru marki skömmu fyrir leikslok. Guðjón Þórðarson, þjálfari Víkings, sagði í viðtali eftir leik að það þurfi að búa til nýtt lið í Ólafsvík og að það verði breytingar. Það þurfi að púsla saman liði, reyna að stækka heimahópinn og búa svo til stöðu fyrir útlendingana sem þeir þurfi á að halda.

Víkingur endaði í neðsta sæti með átta stig í 22 leikjum og Þróttur Reykjavík féll með þeim í 2. deild með fjórtán stig. Fram sigraði í Lengjudeildinni með yfirburðum, vann 18 leiki, gerði fjögur jafntefli og tapaði ekki leik. Með þeim upp í Pepsi Max deildina fer lið ÍBV sem hefur þegar tryggt sér sæti í efstu deild en þeir eiga einn leik eftir í deildinni um næstu helgi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir