Byrjunarlið Kára gegn Magna á laugardaginn. Ljósm. sgh

Kári tapaði sjötta leiknum í röð

Kári endaði ekki á góðu nótunum í síðasta leik liðsins í 2. deild í bili að minnsta kosti. Kári lék gegn liði Magna á Grenivíkurvelli á laugardaginn og varð að sætta sig við enn eitt tapið. Káramenn komust þó yfir í leiknum á 19. mínútu með marki Ármanns Inga Finnbogasonar en Guðni Svavarsson jafnaði fyrir heimamenn á 37. mínútu og jafnt í hálfleik 1-1.

Það voru síðan leikmenn Magna sem tryggðu sér sigurinn með tveimur mörkum á tveimur mínútum. Fyrst skoraði Angantýr Máni Gautason á 77. mínútu og mínútu síðar var það Guðni Sigþórsson með sitt annað mark fyrir Magna, lokastaðan 3-1 fyrir norðanmenn. Athygli vekur að aðeins tveir leikmenn voru á varamannabekk Kára í leiknum, markvörðurinn Bjarki Rúnar Ívarsson sem kom inn á í sínum fyrsta leik í sumar með Kára á 71. mínútu og formaður Kára, Sveinbjörn Geir Hlöðversson sem fékk að leika lausum hala síðustu mínúturnar eftir að fyrrnefndur Angantýr hafði fengið rautt spjald skömmu áður. Þess má geta að Sveinbjörn er 25 árum eldri en yngsti leikmaður Kára í leiknum sem var Ellert Lár Hannesson en hann er fæddur árið 2004. Þá voru Káramenn án þjálfara síns í leiknum því Ásmundur Haraldsson var upptekinn í verkefnum með A-landsliði kvenna sem er að undirbúa sig fyrir leik gegn Hollandi annað kvöld.

Kári lauk tímabilinu í neðsta sæti með níu stig í 22 leikjum og Fjarðabyggð fylgir þeim niður í þriðju deildina með ellefu stig. Þróttur Vogum hafnaði í efsta sæti í deildinni og tryggði sér sæti í Lengjudeildinni á næsta ári ásamt liði KV úr Vesturbænum sem náði öðru sætinu eftir mikla baráttu við lið Völsungs frá Húsavík.

Líkar þetta

Fleiri fréttir