Jón Þór, Arnar og Jóhannes Karl.

Skagamenn setja mark sitt á Mjólkurbikarinn

Það er ljóst eftir leiki gærkvöldsins í Mjólkurbikar karla í knattspyrnu hvaða lið mætast í undanúrslitunum í byrjun október. Þar mætast lið Skagamanna og Keflvíkinga annars vegar og lið Vestra og Víkings Reykjavíkur hins vegar. Það er skemmtileg staðreynd að þrír þjálfarar þessara undanúrslitaliða eru Skagamenn í húð og hár. Það eru þeir Jóhannes Karl Guðjónsson þjálfari Skagamanna, Jón Þór Hauksson þjálfari Vestra á Ísafirði og Arnar Gunnlaugsson þjálfari Víkings. Þá má einnig geta þess að annar af þjálfurum Keflvíkinga, Sigurður Ragnar Eyjólfsson, er einnig með tengingu við Akranes. Hann lék með Skagamönnum í Landsímadeildinni árin 1998 og 1999 og skoraði átta mörk í 18 leikjum. Hann mætti síðan aftur sex árum síðar í Landsbankadeildina með Skagamönnum og skoraði þá fimm mörk í 15 leikjum og Nota Bene, hann er enn skráður sem leikmaður ÍA!

Skagatengingin er því ansi sterk þetta árið í Mjólkurbikarnum og vandséð hvernig deildin hefði farið án aðkomu þeirra! Allavega er nánast öruggt að Skagamaður muni lyfta bikarnum í ár. Fjögurra liða úrslitin verða spiluð helgina 2.-3. október.

Líkar þetta

Fleiri fréttir