Skagamenn komnir í undanúrslit í Mjólkurbikarnum

Skagamenn skelltu sér í Breiðholtið í gær og léku gegn liði ÍR í 8-liða úrslitum Mjólkurbikarsins. Mikið var undir í leiknum því Skagamenn urðu síðast bikarmeistarar árið 2003 og hafa ekki síðan þá komist lengra en í 8-liða úrslit. ÍR-ingar voru hins vegar að jafna sinn besta árangur í bikarnum og þeir virtust staðráðnir í því að komast lengra og byrjuðu leikinn af krafti. Strax á fyrstu mínútu áttu þeir skalla rétt yfir mark gestanna eftir hornspyrnu og voru miklu sprækari fyrsta korterið í leiknum. Það bar árangur á 17. mínútu þegar Reynir Haraldsson átti góða fyrirgjöf beint á kollinn á Pétri Hrafni Friðrikssyni sem hamraði hann í netið. Eftir þetta bættu Skagamenn aðeins í og fengu nokkur hálffæri en á lokamínútu fyrri hálfleiks kom Skagamaðurinn Þórður Þorsteinn Þórðarson öllum að óvörum. Hann fékk boltann fyrir utan teig, tók svokallaðan Zidane snúning, sólaði þrjá í leiðinni og skoraði með góðu skoti í fjærhornið. Ansi vel gert hjá Þórði og því jafnt í hálfleik 1-1.

Það var ljóst frá fyrstu mínútu seinni hálfleiks að Skagamenn voru meira tilbúnir í baráttuna um bikarinn og eftir tíu mínútna leik var Gísli Laxdal Unnarsson búinn að koma þeim yfir með góðu skoti utan teigs. Skömmu síðar hefði Ísak Snær Þorvaldsson nánast getað gulltryggt sigurinn en skaut fram hjá fyrir opnu marki. ÍR-ingar reyndu hvað þeir gátu til að jafna leikinn en sóknir þeirra voru máttlitlar og lítil ógn af þeim. Það var síðan Guðmundur Tyrfingsson sem innsiglaði sigur Skagamanna undir lok leiksins þegar hann fékk boltann ókeypis frá varnarmanni ÍR, komst fram hjá markmanninum og lagði boltann í markið. Vel gert hjá Selfyssingnum unga enda fagnaði hann vel og innilega markinu.

Það var síðan dregið í undanúrslitum Mjólkurbikarsins í gær eftir leiki kvöldsins og þar fengu Skagamenn heimaleik gegn Keflavík og Vestri frá Ísafirði, sem sló út Íslandsmeistara Vals, tekur á móti bikarmeisturum Víkings frá Reykjavík. Leikur Skagamanna og Keflvíkinga verður laugardaginn 2. október klukkan 14 á Akranesvelli og daginn eftir mætast Skagamennirnir Jón Þór Hauksson og Arnar Gunnlaugsson, þjálfarar Vestra og Víkings, á Olísvellinum á Ísafirði klukkan 14.

Líkar þetta

Fleiri fréttir