Sölvi Gylfason, þjálfari Skallagríms. Ljósm. vaks

„Margir heimamenn fengu tækifæri og góða leikreynslu“

Skallagrímur úr Borgarnesi varð í fimmta sæti B-riðils í 4. deild karla í knattspyrnu í sumar með 15 stig í 14 leikjum, vann fjóra leiki, gerði þrjú jafntefli og tapaði sjö leikjum. Sölvi Gylfason var spilandi þjálfari liðsins og blaðamaður Skessuhorns tók hann í stutt spjall varðandi sumarið og næstu skref og spurði hann fyrst hvernig hefði gengið að vera spilandi þjálfari. Sölvi segir að hann hefði verið spilandi þjálfari liðsins síðustu tvö ár og því kominn með ákveðna reynslu í því hlutverki. „Declan Redmond var spilandi aðstoðarþjálfari og þá vorum við með menn í liðsstjórn sem sáu um að framkvæma skiptingar. Það var ánægjulegt hve margir voru viljugir að koma að liðinu eins og t.d. Smári Vals, Gaui Gísla, Heimir Smári og fleiri félagsmenn. Það var vissulega krefjandi en að sama skapi mjög gaman.“

Misstu móðinn

Sölvi sagði í viðtali við Skessuhorn fyrir mótið í sumar að stefnan væri alltaf sett á að komast í úrslitakeppnina. Nú var liðið aldrei nálægt því í sumar, er þjálfarinn með einhverja skýringu á því? „Já, stefnan er alltaf sett á úrslitakeppnina hjá Skallagrími. Það setti ákveðinn tón að tapa fyrsta leik gegn SR en þá vorum við án lykilmanna vegna meiðsla og bólusetningar vegna Covid 19. Við unnum næstu tvo leiki og virtumst vera að fara á flug en gerðum síðan jafntefli og töpuðum jöfnum leik gegn Hamri.“ Sölvi segir að þeir hafi einhvern veginn ekki náð sér á strik eftir það og þegar KH og Hamar fóru að stinga af í riðlinum og markmiðin urðu fjarlægari misstu þeir svolítið móðinn. „Þrátt fyrir að við kæmust ekki í úrslitakeppnina var mjög jákvætt að margir ungir og uppaldir heimamenn fengu tækifæri og góða leikreynslu.“

Nú léku tveir leikmenn frá Spáni með ykkur í sumar. Gekk það dæmi upp, styrktu þeir hópinn og náðu þeir að aðlagast breyttum aðstæðum? „Það verður að segjast eins og er að þeir stóðu því miður ekki undir þeim væntingum sem við gerðum til þeirra. Við fengum sóknarmann og vinstri bakvörð sem styrktu liðið alls ekki á þann hátt sem við vorum að vonast eftir. En það er stundum þannig í þessu.“ Skallagrímur hefur undanfarin ár verið í samstarfi við ÍA og í sumar og segir Sölvi að samstarfið hafi gengið ágætlega: „Við vorum með tvo leikmenn í láni frá þeim, þá Davíð Frey Bjarnason, kantmann, og Bjarka Rúnar Ívarsson, markmann. Þeir stóðu sig virkilega vel, bættu leik sinn mjög mikið og við vorum mjög ánægðir með þá.“ Varðandi framhaldið á þessu samstarfi segir Sölvi að það eigi í raun eftir að koma í ljós en það sé ljóst að það hefur nýst báðum aðilum vel. „Til dæmis spilaði Árni Marinó, markvörður Skagamanna, með okkur alls fimm leiki í fyrrasumar og fékk þar með dýrmæta reynslu.“

Er eitthvað að frétta af aðstöðumálum varðandi gervigrasvöllinn á æfingasvæðinu? „Það hefur lítið heyrst af aðstöðumálum varðandi völlinn annað en sú tillaga sem kom frá starfshópi á vegum Borgarbyggðar. Það er vonandi að það mál fari að hreyfast enda eru æfinga- og keppnisaðstæður í Borgarnesi yfir vetrartímann bara ekki til staðar og ekki í samræmi við íþróttaboðorð ÍSÍ.“ Að lokum segir Sölvi þegar ég spyr hann hvort byrjað sé að ræða þjálfaramál fyrir næsta tímabil og hvort hann hafi áhuga á að vera áfram þjálfari liðsins: „Sem stendur hafa engar formlegar viðræður átt sér stað og hvort ég verði áfram þjálfari liðsins verður bara að koma í ljós.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir