Annar flokkur kvenna ÍA í úrslit í bikarnum

ÍA tryggði sér sæti í úrslitum í bikarkeppni 2. flokks kvenna í knattspyrnu í gærkvöldi þegar liðið sigraði sameiginlegt lið Selfoss/Hamars/Ægis/KFR í undanúrslitum bikarsins á JÁVERK vellinum á Selfossi. Lilja Björg Ólafsdóttir, María Björk Ómarsdóttir og Ylfa Laxdal Unnarsdóttir skoruðu mörk ÍA í leiknum í öruggum sigri en áður hafði ÍA unnið lið FH í 8 liða úrslitunum eftir vítaspyrnukeppni. Fram undan er bikarúrslitaleikur gegn sameiginlegu liði Breiðabliks og Augnabliks föstudaginn 24. september næstkomandi klukkan 17 en leikstaður er enn óákveðinn.

ÍA og Breiðablik/Augnablik hafa leikið tvo leiki í sumar í 2. flokki kvenna A deild og Kópavogsstúlkur unnið þá báða, þann fyrri 3-2 og seinni 4-2. Breiðablik/Augnablik er Íslandsmeistari í 2. flokki en þær voru efstar í A deild með 30 stig, FH var í öðru sæti með 28 stig og ÍA í því þriðja með 18 stig en eiga tvo leiki eftir í deildinni.

Þess má geta að í síðasta leik ÍA gegn Haukum í Lengjudeildinni í síðustu viku voru alls fimm stelpur í byrjunarliði ÍA og fimm sem voru varamenn af þeim sem hófu leik í leiknum gegn Breiðablik/Augnablik. Þá vakti athygli blaðamanns að í leiknum kom inn á Sunna Rún Sigurðardóttir sem er fædd árið 2008 og því aðeins 13 ára gömul á árinu en í 2. flokki eru stelpur fæddar 2002-2004. Sunna er dóttir knattspyrnuhjónanna Sigurðar Sigursteinssonar og Margrétar Ákadóttur og systir Arnórs Sigurðssonar sem leikur með Venezia á Ítalíu og þykir nokkuð efnileg knattspyrnukona.

Líkar þetta

Fleiri fréttir