Bryndís Rún Þórólfsdóttir fyrirliði ÍA. Ljósm. sas.

Við eigum nóg inni segir fyrirliðinn fyrir leik kvöldsins

Stelpurnar í meistaraflokki kvenna í knattspyrnu hjá ÍA taka á móti stöllum sínum í HK á Akranesvelli í kvöld. Leikurinn er í 13. umferð Lengjudeildarinnar en deildin er afar spennandi þetta sumarið og er í raun hver leikur sem úrslitaleikur. Skagakonur gerðu jafntefli 1-1 gegn toppliði KR í síðustu umferð en HK tapaði fyrir Aftureldingu á heimavelli 0-2. Fyrir leikinn er ÍA í áttunda sæti með ellefu stig en HK í því níunda með níu stig. Reikna má með jöfnum og spennandi leik þar sem bæði lið leggja allt undir. Skessuhorn heyrði í fyrirliða ÍA, Bryndísi Rún Þórólfsdóttur, og spurði hana út í leikinn í kvöld.

„Leikurinn leggst mjög vel í mig. Við áttum flottan leik á móti KR í síðustu umferð sem var svekkjandi að ná ekki að klára. Við getum tekið margt úr þeirri frammistöðu með okkur í leikinn við HK. Við þurfum að spila okkar leik og mæta 100% tilbúnar,“ segir Bryndís Rún.

Aðspurð um stöðuna á mannskapnum fyrir kvöldið segir Bryndís Rún hana mjög góða. „Það eru smávægileg meiðsli hér og þar en ekkert sem ætti að hrjá okkur í leiknum í kvöld. Við erum búnar að eiga mjög góða æfingaviku og erum klárar í hörku leik.“

Fyrirliðinn segir að stigasöfnunin í sumar hafi ekki verið eins og þær ætluðu sér. „Þó er ýmislegt jákvætt við frammistöðu okkar, sem við getum tekið með okkur í næstu leiki. Það er töluvert eftir af mótinu og við eigum nóg inni,“ segir Bryndís Rún.

Stuðningsmenn ÍA eru hvattir til að fjölmenna á völlinn og styðja Skagastelpur til sigurs en leikurinn hefst stundvíslega kl. 19:15. Elkem stendur þétt á bak við stelpurnar og býður öllum stuðningsmönnum frítt á völlinn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir