Keppendur Íslands á Norðurlandamótinu í grjótglímu. Sylvía fyrir miðri mynd. Ljósm. sigosig

Sylvía keppir á Norðurlandamótinu í grjótglímu

Sylvía Þórðardóttir klifurkona úr ÍA, keppir á Norðurlandamótinu í grjótglímu sem fram fer um næstu helgi, 6. og 7. ágúst í Kaupmannahöfn í Danmörku. Sylvía keppir í B-flokki stúlkna en þetta er í annað sinn sem keppandi frá ÍA tekur þátt á Norðurlandamóti en Brimrún Eir Óðinsdóttir tók þátt á Norðurlandamótinu í línuklifri fyrir nokkrum árum síðan. Þetta er frumraun Sylvíu í keppni á erlendri grundu en alls eru sjö keppendur frá Íslandi og tveir þjálfarar sem fylgja hópnum. Þjálfarar liðsins eru Elmar Orri Gunnarsson og Þórður Sævarsson sem jafnframt er faðir Sylvíu.

Norðurlandamótið átti að fara fram í mars árið 2020 en hefur verið frestað í tvígang þar til nú að mótið verður haldið. Landsliðshópurinn kom til Kaupmannahafnar um síðustu helgi þar sem þau búa sig nú undir mótið. Hópinn skipa þau Stefán Þór og Gabríela í junior flokki, Lukka Mörk, Árni og Sólon í A-flokki og Sylvía og Elís í B-flokki. Eldri hópurinn, junior, (fædd 2004 og 2005) keppir í undankeppni á föstudag og yngri hópurinn, A- og B-flokkur, (fædd 2006 og 2007) keppir í undankeppni á laugardaginn.

Í stuttu spjalli við Skessuhorn frá Kaupmannahöfn sagði Þórður að alls væru keppendur um 160 á mótinu frá öllum Norðurlöndunum og að tíu keppendur kæmust í úrslit í hverjum flokki. Samkeppnin væri því ansi hörð en hann væri bjartsýnn að 2-3 af íslensku keppendunum myndu ná að komast í úrslit.

Líkar þetta

Fleiri fréttir