Staða Skagamanna að verða vonlítil eftir tapleik gærdagsins

Skagamenn mættu Stjörnunni á Samsungvellinum í gærkveldi í miklum botnbaráttuslag. Þeir gulklæddu urðu hreinlega að vinna leikinn til þess að eiga von um að rífa sig upp úr fallsæti í deildinni. Stjörnumenn byrjuðu leikinn betur og fengu draumabyrjun þegar Eggert Aron Guðmundsson kom þeim yfir strax á fimmtu mínútu leiksins. Þorsteinn Már Ragnarsson átti sendingu inn á Eggert sem hnoðaði sér í gegnum vörn Skagamanna og skoraði í fjærhornið.

Eftir markið tóku Skagamenn við sér og léku ágætlega úti á vellinum en náðu ekki að skapa sér marktækifæri en komust næst því þegar Viktor Jónsson átti sendingu inn fyrir vörnina á Gísla Laxdal Unnarsson en Haraldur Björnsson markvörður Stjörnunnar náði að bjarga með úthlaupi á síðustu stundu. Áfram héldu Skagamenn boltanum mun betur en fengu svo mark í andlitið á 24. mínútu þegar Hilmar Árni Halldórsson var einn og óvaldaður og skoraði með góðu skoti utan vítateigs en vörn Skagamanna var alveg sofandi í aðdraganda marksins. Lítið markvert gerðist þar til Stjörnumenn áttu sitt þriðja skot á markið í hálfleiknum og skoruðu þar með sitt þriðja mark. Það mark skoraði Magnús Anbo með föstu skoti upp í þaknetið. Staðan 3:0 í hálfleik fyrir heimamenn. Það var ekki eins og Stjörnumenn væru með einhvern stjörnuleik í fyrri hálfleiknum. Þeir áttu þrjú skot á markið og skoruðu úr þeim öllum. Skagamenn heldur meira með boltann en náðu ekki að skapa sér almennileg færi.

Það gerðist síðan afskaplega lítið markvert í síðari hálfleik. Stjörnumenn voru heldur ákveðnari en ekkert virtist ganga upp hjá Skagamönnum í leiknum. Mikið um slakar sendingar sem ekki rötuðu á samherja. En Stjörnumenn náðu samt að setja fjórða markið í uppbótartíma á 93. mínútu þegar Magnus Anbo skoraði sitt annað mark í leiknum með skoti í fjærhornið eftir að hafa leikið Skagavörnina grátt.

Það var í raun enginn leikmaður Skagamanna sem stóð upp úr í leiknum. Liðið var sennilega að leika einn sinn slakasta leik í sumar. Það að Skagamenn áttu ekkert skot á markið í leiknum segir sína sögu.

Jóhannes Karl Guðjónsson var að vonum ekki sáttur í leikslok. Sagði að það hefði vantað alla grimmd í leikmenn sína. Þá sagði hann að liðið hefði saknað Ísaks Snæs Þorvaldssonar í leiknum en hann tók út leikbann. Því hefðu þeir verið undir í baráttunni á miðjunni.

Skagamenn eru sem fyrr í neðsta sæti deildarinnar með níu stig eftir 15 umferðir, sex stigum frá öruggu sæti og fjórum stigum frá HK sem eru næstneðstir. Næsti leikur Skagamanna er einmitt svokallaður sex stiga leikur gegn liði HK á sunnudaginn á Akranesvelli og hefst klukkan 19.15.

Líkar þetta

Fleiri fréttir