Mynd. Plan B.

Plan B í Borgarnesi hefst í dag

thumbnail of Dagskrá_Plan-B_2021_ISL

Dagskrá Plan B listahátíðarinnar. Hægt er að smella á myndina til að sjá hana í stærri upplausn. Mynd. Plan B.

Samtímamyndlistarhátíðin Plan B verður haldin sjötta árið í röð í Borgarnesi dagana 5. til 8. ágúst. Hátíðin hefur frá árinu 2016 fest sig í sessi sem þekkt stærð í íslensku listalífi og vex ásmegin ár frá ári. Sem dæmi, þá hefur hátíðin fengið tvær tilnefningar til Eyrarrósarinnar, árin 2019 og 2020. Eyrarrósin er viðurkenning sem er veitt til framúrskarandi menningarverkefna utan höfuðborgarsvæðisins og hefur verið veitt allt frá árinu 2005.

„Plan B hátíðin er haldin í Borgarnesi og er til þess fallin að miðla samtímalist á landsbyggðinni en þar koma saman reyndir listamenn og minna reyndir í fjölbreyttum sýningum og viðburðardagskrá,“ segir í fréttatilkynningu frá aðstandendum hátíðarinnar.

„Plan B hefur alltaf þurft að finna lausnir en í ár höfum við, eftir reynslu síðasta árs í heimsfaraldrinum, sett saman ‘covidvæna’ og enn litríkari hátíð en áður,“ segir Sigrún Gyða, einn skipuleggjenda hátíðarinnar.

Hátíðin dreifist um ólíka kima bæjarins en formleg opnun hátíðarinnar fer fram í Arion banka laugardaginn 7. ágúst klukkan 16:00 en foropnanir verða í Blómasetrinu – Kaffi Kyrrð og á Landnámssetrinu í dag, fimmtudaginn 5. ágúst. Hægt er að fylgjast með undirbúningi og því sem gerist bakvið tjöldin á Instagram reikningi og Facebook síðu hátíðarinnar í gegnum @planbartfestival. Mikil og þétt dagskrá verður í gangi á laugardag frá kl 13:00 og verður hægt að sjá sýningar í fimm sýningarrýmum og upplifa útiverk og gjörninga víðsvegar í bænum.

Á vefsíðu Plan-B www.planbartfestival.is má sjá kort af Borgarnesi þar sem má sjá sýningastaði og fá nánari upplýsingar um listamenn og tímasetningar á hverjum stað fyrir sig. Gjörningaviðburður Plan-B verður haldinn á laugardagskvöld en honum verður streymt á vefnum og auglýstur sérstaklega á samfélagsmiðlum og vefsíðu hátíðarinnar í aðdraganda hennar. Í framhaldi, og í lifandi streymi, verður haldið Plan-B þátttökupartí þar sem fólk heima í stofu gefst færi á að taka þátt í fögnuði hátíðarinnar í gegnum fundarbúnaðinn Zoom.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir